Umfangsmiklar framkvæmdir munu standa yfir næstu misserin við stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar sem nú eru í gangi eða fyrirhugaðar er áætlaður alls 5 milljarðar króna og mun ríkið standa straum af kostnaði að stórum hluta.
Spurningum hefur hins vegar verið varpað fram um hvort réttlætanlegt sé að ríkið taki þátt í að greiða hluta framkvæmdakostnaðarins við stækkun Þorlákshafnar. Páll Hermannsson, hagfræðingur og sérfræðingur í flutningum, skrifaði grein í Kjarnann í fyrra þar sem hann færði rök fyrir því að vafasamt væri, lögum og reglugerðum samkvæmt, að setja svo mikið sem fimmeyring af ríkisfé í uppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn þar sem höfnin væri ekki að fullnýta tekjumöguleika sína.
Hafnir skuli fullnýta gjaldskrárstofna til að fá ríkisstyrk
Í reglugerð um hafnamál er fjallað um þau skilyrði sem hafnir þurfa að uppfylla til þess að fá ríkisstyrk til hafnarframkvæmda. Þar segir að viðkomandi hafnarsjóður skuli fullnýta gjaldskrárstofna sína og er yfirvöldum samkvæmt reglugerðinni skylt að bera gjaldskrá hafnarinnar saman við gjaldskrár óstyrktra hafna og meta áhrif langtímasamninga við notendur.
„Ef í ljós kemur að tekjur hafnarinnar eru hlutfallslega minni en hjá samanburðarhöfnunum eða raska samkeppnisstöðu við aðrar hafnir eru skilyrði ríkistyrks ekki uppfyllt,“ segir í reglugerðinni.
Fyrirspurn gleymdist hjá ráðuneyti (og blaðamanni) í heilt ár
Kjarninn óskaði eftir svörum um hvort mat á þessu hefði verið framkvæmt frá innviðaráðuneytinu, sem þá hét reyndar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, í ágúst í fyrra og ítrekaði fyrirspurnina svo í aftur í nóvember síðastliðnum. Fyrirspurnin féll hins vegar á milli skips og bryggju hjá ráðuneytinu – og blaðamaður ýtti ekki á eftir svari fyrr en seint og síðar meir. Svar fékkst svo undir lok nýliðins ágústmánaðar.
Gjaldskrá Þorlákshafnar raski ekki samkeppni
Í svarinu sem barst segir að það sé Vegagerðin sem sjái um þátt ríkisins við framkvæmd hafnalaga og hafi eftirlit með framkvæmd þeirra. Fram kemur að mat af þessu tagi hafi verið framkvæmt og að niðurstaða Vegagerðarinnar hafi verið sú að „gjaldskrá Þorlákshafnar raskaði ekki samkeppni“.
„Við skoðun á því hvort Þorlákshöfn uppfyllti skilyrði fyrir ríkisstyrk, lagði Vegagerðin mat á það hvort gjaldskrá hafnarinnar væri hlutfallslega lægri en samanburðarhafna eða væri til þess fallin að raska samkeppni. Stofnunin gerði samanburð á Þorlákshöfn og höfnum sem hugsanlega væru í samkeppni við höfnina eða með sambærilegan rekstrargrundvöll. Það var niðurstaða Vegagerðarinnar að gjaldskrá Þorlákshafnar raskaði ekki samkeppni,“ segir í svarinu frá innviðaráðuneytinu, en samanburðurinn byggði á opinberum gjaldskrám hafnanna.
Í svarinu er nefnt að vörugjöld af sjávarfangi séu mjög stór þáttur í tekjum Þorlákshafnar. Í samanburðinum hefði komið fram að munur á vörugjöldum fyrir sjávarfang væri mjög lítill og því væri sá þáttur ekki til þess fallinn að raska samkeppni.
Vörugjöld fyrir bifreiðar einungis 43 prósent af gjöldum Faxaflóahafna
Í samanburðinum kom hins vegar einnig fram „að gjöld fyrir bifreiðar og vélar væru lægri í Þorlákshöfn en hjá Faxaflóahöfnum“ en ekki var tiltekið í svari ráðuneytisins hversu mikið lægri gjöldin eru.
Samkvæmt vörugjaldskrám hafnanna tveggja eru greiddar 1.970 kr. í vörugjöld af þessum vörum fyrir hvert tonn hjá Faxaflóahöfnum en 849 krónur í Þorlákshöfn, sem þýðir að gjaldið í þessum flokki í Þorlákshöfn var einungis 43 prósent af samsvarandi gjaldi Faxaflóahafna.
Þetta þykir þó ekki til þess fallið að raska samkeppni, en þess var getið í svari ráðuneytisins, sem unnið var í samstarfi við sérfræðinga Vegagerðarinnar, að flutningur bifreiða og véla um Þorlákshöfn væri einungis lítill hluti af flutningum um höfnina, eða um 20 prósent.
„Það var því ekki talið hafa áhrif á samkeppni. Flutningur bifreiða og véla fer eftir sem áður að stærstum hluta um Faxaflóahafnir,“ segir í svari ráðuneytisins, en á undanförnum árum hefur hlutur Þorlákshafnar í þessum flutningum aukist mjög eftir að flutningafyrirtækið Smyril Line hóf siglingar ekjuskipa þangað frá meginlandi Evrópu.
Meðalgjöld hærri í Þorlákshöfn, ef ekki væri fyrir allan vikurinn
Í svari ráðuneytisins segir að við nánari samanburð Þorlákshafnar við Faxaflóahafnir komi í ljós að meðaltekjur á tonn í Þorlákshöfn séu 374,4 krónur en 399 krónur hjá Faxaflóahöfnum.
„Skýringin er sú að mikið magn af vikri fer um Þorlákshöfn en hann fellur í lægsta gjaldflokkinn. Væri litið fram hjá flutningi á vikri yrðu meðalgjöld á tonn í Þorlákshöfn hærri en hjá Faxaflóahöfnum,“ segir í svari ráðuneytisins.
Þar segir einnig það séu engir afslættir gefnir af vörugjöldum í Þorlákshöfn og að ekki séu gefnir afslættir að skipagjöldum, nema þegar útgerðir sjái sjálfar um tiltekna verkþætti.
Fjallað var um þær umfangsmiklu framkvæmdir sem nú standa yfir við höfnina í Þorlákshöfn í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar. Þar var haft eftir Fannari Gíslasyni forstöumanni hafnadeildar Vegagerðarinnar að breytingarnar sem væri verið að gera á höfninni væru afar nauðsynlegar og að þær myndu að öllum líkindum breyta rekstrarafkomu hafnarinnar til muna.