Heimir Már Pétursson, fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti formanns Blaðamannafélags Íslands. Nýr formaður félagsins verður kjörinn á aðalfundi sem til stendur að halda fyrir lok aprílmánaðar.
Heimir hefur starfað í fjölmiðlum í meira en þrjá áratugi og í tilkynningu vegna framboðs síns, sem birt hefur verið á heimasíðu Blaðamannafélagsins, segir hann að breytingarnar sem orðið hafa á þeim tíma séu svo miklar að nánast sé hægt að tala um aðra veröld þá og nú. „Án þess að fara nánar út í þessar breytingar sem við þekkjum flest þá skiptir miklu máli um þessar mundir að standa vörð um störf blaðamanna, vandaðrar blaðamennsku þar sem vinnubrögð hennar eru höfðu í heiðri gagnvart þeirri gífurlegu upplýsingaóreiðu sem nú herjar á almenning. Á sama tíma berjast frjálsir og óháðir fjölmiðlar fyrir tilveru sinni í samkeppni við erlenda samfélagsmiðla sem engu skila til íslensks samfélags.“
Hættir eftir rúmlega áratug sem formaður
Hjálmar Jónsson, sem verið hefur formaður Blaðamannafélags Íslands frá árinu 2010, tilkynnti á aðalfundi félagsins í október síðastliðnum að hann muni ekki bjóða sig fram á ný í embættið á næsta aðalfundi.
Aðalfundurinn átti upphaflega að fara fram í apríl 2020 en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Hjálmar var einn í framboði til formanns á síðasta aðalfundi og því sjálfkjörinn, en kosið er um formennsku í Blaðamannafélaginu á hverjum aðalfundi. Áður en að Hjálmar tók við sem formaður félagsins á miklum átakafundi árið 2010 hafði hann verið framkvæmdastjóri þess í nokkur ár. Í kjölfar þess var starf framkvæmdarstjóra og formanns sameinað í eitt.
Í ræðu sinni á fundinum sagði Hjálmar að það væri „tímabært að ný kynslóð tæki við“.