Þröstur Sveinbjörnsson, hagfræðingur og forritari, hefur um nokkurra ára skeið haldið úti vefsíðunni Lanareiknir.is. Á síðunni eru upplýsingar um nær allt það sem viðkemur fasteignamarkaðinum og fasteignalánum, meðal annars ásett meðalverð fasteigna skipt eftir hverfum höfuðborgarsvæðisins, þróun fasteignaverðs samkvæmt nýjustu opinberu gögnum og reiknivélar fyrir mismunandi lánaform. Þá eru einnig upplýsingar um þau kjör sem viðskiptabankarnir eru að bjóða og nýjustu efnahagsfréttir.
Þröstur segir hugmyndina fyrst hafa kviknað þegar hann starfaði hjá Umboðsmanni skuldara fyrir nokkrum árum. „Ég fékk spurningar um kosti verðtryggðra og óverðtryggðra lána og fór þá að vinna að þessu verkefni. Ég bjó til reiknivélar sem sýndu muninn á mismunandi lánaformunum.“
Reiknivélarnar er allar að finna inn á lánareiknir.is. Vefsíðan hefur þó tekið töluverðum breytingum og er nú heildstæðari fasteignavefur en áður. Þröstur vinnur að enn frekari breytingum og stefnir á að setja þær loftið innan tíðar.
Sýnir verðþróun eftir hverfum
Lánareiknir.is notast við opinberar upplýsingar Þjóðskrár um verðþróun á fasteignamarkaðinum og einnig fasteignavefi Vísis og Mbl.is. Til dæmis er hægt að sjá að í dag er ásett meðalverð á fasteign til sölu í Austurbænum um 40,3 milljónir króna. Alls eru 237 íbúðir til sölu á svæðinu. Fermetraverð þeirrar dýrustu er 720 þúsund krónur en fermetraverð þeirrar ódýrustu er 243 þúsund krónur. Upplýsingarnar uppfærast daglega.
Hægt er að sækja sambærilegar upplýsingar fyrir öll hverfi höfuðborgarsvæðisins auk þess sem nákvæm staðsetning hverrar íbúðar birtist á korti með helstu upplýsingum um stærð og gerð.
Kjarasamningarnir skipta máli
Fasteignaverð hækkaði um tæp 10% á síðasta ári og spá sumir greiningaraðilar að slíkar hækkanir haldi áfram næstu árin . Spurður um eigin sýn á þróunina segir Þröstur að í samanburði við markaðinn fyrir hrun þá sé fjöldi samninga langt frá því sem þá þekktist, þótt velta á markaði sé nú á svipuðum stað. „Þannig er velta á hvern samning að aukast. Það er vert að hafa í huga að innkoma fasteignasjóða hefur haft áhrif. Þeir hafa að stærstum hluta fjárfest miðsvæðis í Reykjavík og ef borið er saman ásett verð á þessu svæði og raunverð frá Þjóðskrá, þá má sjá að hækkunin hefur verið mest miðsvæðið.
Verðbreytingar og velta á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu 2007 til 2014.
Hvað áframhaldandi þróun varðar segir Þröstur að ytri horfur skipti miklu máli. „Ef verðbólgan er áfram lág og vextir lækka þá er líklegt að fasteignaverð hækki í takt við það. Ef kaupmáttarþróunin verður hagfelld þá eykst greiðslugeta fólks. Komandi kjarasamningar skipta því mjög miklu máli, hvort þeir heppnist þannig að kaupmáttur eykst, en að launahækkanir fari ekki allar út í verðlagið,“ segir Þröstur. Hann telur þetta miklu máli skipta og talar fyrir hóflegum hækkunum fasteignaverðs „Skuldaleiðréttingin getur einnig haft jákvæð áhrif, þar sem greiðslubyrði fólks lækkar. Ég sé þó ekki að þau áhrif verði eins mikil og sumir hafa viljað af láta, þótt lækkunin geti vissulega hjálpað.“
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.