Helgi Sig skopmyndateiknari Morgunblaðsins er hættur að teikna myndir fyrir blaðið að eigin frumkvæði, samkvæmt heimildum Kjarnans. Ástæðan ku vera sú að hann hafi verið beðinn um að tóna sig niður eða skila annarri mynd í tvígang.
Hann segist í samtali við Kjarnann ekki vilja tjá sig um málið. „Ég vil ekki svara neinu um mín atvinnumál,“ segir hann. Kjarninn beindi fyrirspurn til ritstjóra Morgunblaðsins, Haralds Johannessen, þar sem hann var spurður út í málið en henni hefur ekki enn verið svarað.
Á vefsíðu Helga kemur fram að hann sé búinn að teikna „pólitískar satíruteikningar“ fyrir Morgunblaðið síðan í maí árið 2010.
Síðasta teikningin sem hann gerði fyrir Morgunblaðið birtist þann 14. desember síðastliðinn. Daginn eftir birtist mynd eftir hinn skopmyndateiknara blaðsins, Ívar, en þann 16. desember var mynd eftir ljósmyndara Morgunblaðsins, Kristinn Magnússon, á blaðsíðu 8 við hliðina á Staksteinum þar sem skopmyndir birtast venjulega.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var Helgi beðinn í byrjun nóvember síðastliðnum að breyta teikningu eða skila inn annarri vegna þess að sú sem hann teiknaði þótti ekki birtingarhæf. Hann gerði það ekki og var ljósmynd af ketti sett í staðinn við hliðina á Staksteinum. Þetta gerðist síðan aftur þegar hann skilaði inn teikningu fyrir blaðið sem kom út 16. desember.
Ýmsir hneykslast
Helgi hefur verið mjög umdeildur teiknari í gegnum tíðina. Vísir fjallaði meðal annars um umdeilda teikningu Helga í október 2018 en þar teiknaði hann Margréti Kristínu Blöndal, eða Möggu Stínu eins og hún er oft kölluð, en hún var á þessum tíma nýlega tekin við formennsku í Leigjendasamtökunum. Á myndinni sagði: „Risaeðla nýr formaður leiðindasamtakanna.“ Þá lét hann Möggu Stínu segja: „Leigumarkaðurinn er fíaskó. Maður verður að reyna að poppa þetta eitthvað upp.“
Töluverða gagnrýni mátti heyra í kjölfar birtingar en á Facebook kallaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, teikninguna „ömurð“. Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði að þetta væri „vandræðaleg lágkúra“ og Ragnhildur Sverrisdóttir, þáverandi aðstoðarkona Björgólfs Thors athafnamanns, sagði: „Þetta er hinn teiknandi fingur bláu handarinnar, skilst mér.“
Helgi teiknaði einnig umdeilda mynd síðasta sumar þegar ásakanir um kynferðisofbeldi á hendur Ingólfi Þórarinssyni, eða Ingó Veðurguði, spruttu fram á samfélagsmiðlum. Þá teiknaði hann Ingó fyrir framan veðurkort og undir myndinni stóð: „Öfgar ákvarða sekt uns sakleysi er sannað.“ Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata var meðal þeirra sem gagnrýndi myndina en hann sagði á Twitter: „Og Moggaskrípó sem langbest væri að henda.“
Hægt er að lesa umfjöllun DV um nokkrar myndir Helga hér.