Um helmingur þeirra sem afplána dóma í íslenskum fangelsum hafa setið inni áður. Íslendingar eru í miklum meirihluta í fangelsunum, eða 91 prósent vistmanna. Flestir sitja inni fyrir fíkniefnabrot, kynferðisglæpi eða ofbeldisbrot. Þetta kemur fram í svari Fangelsismálastofnunar ríkisins við fyrirspurn Kjarnans um málaflokkinn. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um hann undanfarna daga.
Langflestir eru Íslendingar
Þótt 139 fangar sitji í fangelsum ríkisins eru alls 180 dómþolar í afplánun vegna óskilorðsbundinna dóma. Það þýðir að 41 afplánar utan fangelsis. Af þessum hópi hafa 89 áður verið í afplánun, eða 49,44 prósent. Af þeim sem eru í afplánun eru 164 Íslendingar og 86 þeirra, eða 52,44 prósent, hafa verið áður í afplánun. Íslendingar eru því líklegri en erlendir fangar að hafa setið áður inni.
Flestir þeirra 139 fanga sem afplána í íslenskum fangelsum í dag sitja inni fyrir fíkniefnabrot, eða 42 talsins. Næstflestir sitja inni fyrir kynferðisbrot, eða 25 talsins, og 22 fangar sitja inni fyrir ofbeldisbrot. Jafnmargir fangar sitja inni fyrir manndráð og þjófnað/skjalafals/fjársvik, eða 17 talsins.
Þegar horft er á alla fanga í afplánun, líka þá sem afplána utan fangelsa, eru 55 að afplána vegna fíkniefnabrota, 31 fyrir kynferðisbrot og jafn margir vegna ofbeldisbrota. Enginn sem afplánar vegna manndráps gerir það utan fangelsa.
Mun fleiri undir rafrænu eftirliti
Mikið hefur verið rætt um önnur úrræði til að framfylgja fullnustu refsinga. Árið 2012, nánar tiltekið í febrúar það ár, hóf Fangelsismálastofnun rafrænt eftirlit með hluta þeirra sem eru í afplánun. Þeir eru þá hluti af samfélaginu á meðan að þeir afplána, en ganga með sérstakan rafrænan búnað á sér sem segir til um staðsetningu þeirra. Á fyrsta ári rafræns eftirlits voru 5,4 dómþolar undir slíku. Í fyrra var meðaltalið 5,9 og það sem af er þessu ári er það rétt rúmlega átta. Því er ljóst að notkun á úrræðinu er að aukast mikið.
Tæplega ellefu prósent þeirra sem afplána í íslenskum fangelsum eru erlendir ríkisborgarar. Þeir eru 15 talsins, en einn slíkur afplánar auk þess utan fangelsis. Til viðbótar sitja fjórir erlendir ríkisborgarar í gæsluvarðhaldi.