Íslensk fyrirtæki fengu uppsagnarstyrki úr ríkissjóði til að segja upp alls 8.194 manns á tímabilinu maí 2020 til febrúar 2021. Alls greiddi ríkissjóður út 12,2 milljarða króna í uppsagnarstyrki á því tímabili sem þeir stóðu til boða.
Samkvæmt svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, fengu 4.038 einstaklingar greidd laun frá sama launagreiðanda á meðan að styrkirnir voru greiddir, og næstu sex mánuði eftir að greiðslu þeirra var hætt. Það þýðir að um helmingur þeirra hafi verið endurráðinn.
Í svari ráðherrans segir að sú skylda hafi ekki verið lögð á stjórnvöld í þeim lögum sem gerðu uppsagnarstyrkina að veruleika að hafa eftirlit með því hvort starfsfólk hefði verið endurráðið á sömu kjörum og það var á fyrir uppsögn. Það verði að ætla að launamennirnir sjálfir, eftir atvikum með stuðningi sinna verkalýðsfélaga, gæti að þeim réttindum. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er ekki kunnugt um að stjórnvöld hafi fengið til meðferðar mál þar sem endurráðningar launamanna voru ekki í samræmi við lögin, en samkvæmt þeim átti einstaklingur eða lögaðili sem bryti af sér „af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögunum sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brotin teljist minniháttar.“
Endurákvarðanir upp á tæpa 210 milljónir
Stjórnvöld settu ýmis skilyrði fyrir stuðningnum. Meðal annars þurfti viðkomandi fyrirtæki að hafa orðið fyrir að minnsta kosti 75 prósent tekjufalli, það mátti ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, máttu ekki hafa tekið ákvörðun um úthlutun arðs eftir 15. mars 2020, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa, kaup eigin hluta, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðaði öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. Jafnframt var kveðið á um að umsækjandi skuldbyndi sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningurinn hefði að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur.
Í svari ráðherrans við fyrirspurn Oddnýjar segir að á árinu 2021 hafi farið fram endurákvarðanir á stuðningi hjá 70 rekstraraðilum upp á tæplega 210 milljónir króna. Öll þau tilvik hafi verið þannig að „tilgreindir höfðu verið eigendur eða aðrir þeir sem áttu að reikna sér endurgjald vegna starfa í þágu rekstrarins og féllu því ekki undir lögin um stuðning vegna uppsagna.“
Gert er ráð fyrir að síðla á þessu ári og á því næsta verði gerðar ýmsar samanburðarkeyrslur hjá Skattinum í því skyni að athuga hvort ákvarðaður stuðningur sýnist réttur. „Þetta verður ekki gert fyrr en viðeigandi gögn liggja fyrir sem hægt er að byggja á og meta, m.a. vegna arðgreiðslna. Jafnframt þarf að athuga hvort tekjufærsla stuðningsins er með réttum hætti en hún getur spannað fimm rekstrarár. Þessi aðferðafræði kallaði á það að setja þurfti upp nýja reiti í skattframtölum rekstraraðila til að skapa möguleika á því að halda utan um þetta frá ári til árs.“
Eign hluthafa varin
Þegar úrræðið var kynnt af ríkisstjórninni, 28. apríl 2020, var tilgangur þess sagður vera sá að veita ákveðnum fyrirtækjum, sem hefðu orðið fyrir miklu tekjutapi, styrki til að eyða ráðningarsamböndum við starfsfólk sitt. Þegar áformin voru kynnt lá ekkert frumvarp fyrir til að gera þau að lögum, ekkert kostnaðarmat hafði verið gert opinbert og engin kynning á áformunum hafði átt sér stað meðal þingflokka. Fyrirtæki hófu að segja fólki upp strax í kjölfarið, og áður en nýr mánuðum hæfist nokkrum dögum síðar.
Frumvarp var svo lagt fram um miðjan maí mánuð 2020 og kostnaðarmat kynnt samhliða. Það gerði ráð fyrir því að ríkissjóður myndi greiða fyrirtækjum sem uppfylltu sett skilyrði alls 27 milljarða króna í styrki til að hjálpa þeim að segja upp fólki. Yfirlýst markmið var að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks, en styrkirnir stóðu þeim fyrirtækjum sem höfðu orðið fyrir að minnsta kosti 75 prósent tekjutapi til boða. Hliðaráhrif voru að eign hluthafa er varin.
Lögin skylduðu opinbera aðila til að birta yfirlit yfir þau fyrirtæki sem fengu uppsagnarstyrki. Sá listi var birtur á heimasíðu Skattsins. Hann var síðast uppfærður í febrúar og nær því ekki yfir allar greiðslur sem greiddar voru út. Þorri þeirra var þó greiddur úr í fyrra – heildarumfang útgreiddra styrkja fór yfir tíu milljarða króna í október 2020 og þeir skriðu yfir 12 milljarða í febrúar 2021 – þannig að listi Skattsins veitir ágætt yfirlit yfir stærstu þiggjendur styrkjanna.
Icelandair Group og tengd félög fengu langmest
Alls fengu fyrirtæki tengd Icelandair Group 4,7 milljarða króna í styrki, eða um 39 prósent allra veittra styrkja. Þar munaði mestu um Icelandair Group sjálft sem fékk 3,7 milljarða króna til að segja upp alls 1.918 manns. Sá aðili sem fékk næst hæstu upphæðina í uppsagnarstyrki er Flugleiðahótel, sem voru í 25 prósent eigu Icelandair Group fram á árið 2021. Þangað hafa farið um 627 milljónir króna úr ríkissjóði. Iceland Travel, ferðaskrifstofa í eigu Icelandair Group fékk 151 milljón króna í uppsagnarstyrki, Bílaleiga Flugleiða fékk 139 milljónir króna og Flugfélag Íslands, sem er var rennt saman við Icelandair Group í fyrra, fékk 83 milljónir króna.
Bláa Lónið fékk þriðju hæstu einstöku uppsagnarstyrkina, alls um 603 milljón króna vegna uppsagna 550 manns. Fjórða fyrirtækið sem fékk uppsagnarstyrki yfir hálfri milljón króna var Íslandshótel hf., sem fékk alls 593 milljónir króna fyrir að segja upp alls 468 starfsmönnum.
Hótel eru raunar fyrirferðamikil á listanum. Centerhotels fékk 266 milljónir króna, Keahótel 203 milljónir króna, Fosshótel 155 milljónir króna og Hótel Saga 114 milljónir króna.
Rútufyrirtækið Allrahanda, sem rekur vörumerkin Grey Line og Airport Express, fékk 191 milljónir króna og tvö félög tengd Kynnisferðum, sem reka vörumerkið Reykjavik Excursions, fengu samtals um 193 milljónir króna.
Önnur fyrirtæki á listanum sem fengu yfir 100 milljónir króna eru öll tengd ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti.