Þrátt fyrir að Íslendingum þyki flestum ekki nógu vel staðið að verndun náttúru landsins vill um helmingur þeirra friðlýsa fleiri svæði. 66 prósent landsmanna eru fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum á friðlýstum svæðum og 49 prósent eru fylgjandi gjaldtöku á aðgengi þessara staða.
Þetta eru helstu niðurstöður skoðanakönnunar sem Maskína framkvæmdi fyrir starfshóp sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í vor til að varpa ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi og þær áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir vegna þeirra. Skýrsla starfshópsins, sem Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fór fyrir, voru kynntar í Hörpu í dag. Í hópnum sátu einnig Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir og Sveinbjörn Halldórsson.
Meðal þeirra lykilþátta sem starfshópurinn leggur áherslu á í skýrslunni er að móta þurfi stefnu um gjaldtöku á friðlýstum svæðum á Íslandi. Tryggja þurfi ennfremur heimildir til að tekjur af gjaldtöku gesta megi nýta bæði til að veita þjónustu og til uppbyggingar og viðhalds mannvirkja.
Einnig þarf að mati starfshópsins að samræma stjórnsýslu og skipulag þeirra stofnana sem reka friðlýst svæði og bæta og einfalda fyrirkomulag þjónustu við þá sem nýta sér svæðin til útivistar eða í atvinnuskyni. Mun fleiri áhersluatriði eru tilktekin, alls sautján talsins.
Við gerð skýrslunnar var aflað margvíslegra gagna auk þess sem viðtöl voru tekin við fjölda aðila sem hafa hagsmuna að gæta ýmist fyrir hönd atvinnulífs, samfélags eða náttúrunnar sjálfrar.
„Ég lít svo á að þessi skýrsla sé grunnur til umræðu og vinnu í framhaldinu,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, í Hörpu. „Það er verk að vinna og við verðum að vinna það saman.“ Hann ætlar að setja af stað vinnu við alla lykilþættina sem starfshópurinn bendir á fyrir áramót.
Þrír þjóðgarðar – gjörólíkt stjórnskipulag
Á Íslandi eru 130 friðlýst svæði, þar af þrír þjóðgarðar og er stjórnskipulag þeirra mjög ólíkt. Átak hefur verið gert í fjölgun friðlýsinga síðustu misseri, m.a. í tíð síðustu ríkisstjórnar. Á sama tíma hafa mörg þeirra orðið fyrir auknu álagi vegna fjölgunar ferðamanna en fjármunum til landvörslu og annars rekstrar er naumt skammtaður, líkt og bent er á í skýrslunni.
Og enn er hugur í ríkisstjórninni sem vill, að því er segir í stjórnarsáttmála, stofna þjóðgarð á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu.
En friðlýsingum fylgja bæði áskoranir og tækifæri og fjármunir þurfa að fylgja stækkunum og fjölgunum friðlýstra svæða, bæði til rekstrar og uppbyggingar.
Valbjörn Steingrímsson, fjármálastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, sagði á kynningarfundinum að gjaldtaka væri eitt en hvernig nota ætti peninginn annað. Í dag væri það takmörkunum háð hvað þjóðgarðurinn má nota þá peninga í sem hann aflar.
Árni, formaður starfshópsins, sagði að breyta þyrfti lögum svo að hægt væri að nýta peninga vegna gjaldtöku til reksturs og innviðauppbyggingar á friðlýstum svæðum. „Næsta skref er að lögfræðingarnir skýri út hvað sé hægt að gera í þeim efnum.“
Sveinbjörn sagði Maskínukönnunina sýna vel að almenningur vill fá auknar tekjur af ferðamönnum og að þær séu notaðar til að byggja upp staðina og vernda náttúruna.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, minnti á að atvinnugreinin nýti friðlýst svæði hvað mest allra og búi til verðmæti fyrir samfélagið úr því. „Hvað gjaldtöku varðar, er vert að muna það, að meirihluti tekna til dæmis þjóðgarðanna á Íslandi kemur frá ferðamönnum nú þegar. Það er ekki þannig að það sé ekki verið að skila tekjum af þessum gestum okkar, bæði íslenskum og erlendum, inn í þessi svæði.“
Hann tók undir að framtíðarhugsun í þessu sambandi væri mikilvæg og fagnaði því útkomu skýrslunnar. En vildi þó benda á að „ætli menn að horfa til þess inn í framtíðina að fara úr hugsuninni um þjónustugjöld, þar sem þjónusta er veitt og gjald tekið fyrir, og yfir í aðgangsgjöld, þá í fyrsta lagi óska ég mönnum bara góðs gengis með það að sannfæra Íslendinga um að þeir þurfi að borga sig inn á Þingvelli“.
Þarf að „opna sílóið“
Jóhannes sagði ferðaþjónustuna þurfa að eiga við „mörg síló ríkisstjórnarinnar“. „Sílóahugsunin í stjórnkerfinu“ væri eitt stærsta vandamálið sem atvinnugreinin byggi við. Sagði hann „hressilega“ minnt á það með þeirri vinnu sem framundan væri um hina nýju skýrslu á sama tíma og vinna á vegum ráðherra ferðamála við að uppfæra stefnu í ferðaþjónustu væri að hefjast. Í henni væri m.a. horft til samræmingar nýtingar og verndar. „Ég ítreka það hér að þetta tvennt verður að tala saman,“ sagði Jóhannes Þór. Spurði hann Guðlaug Þór hvort hann væri tilbúinn að „opna sílóið“ og ræða þessi mál við ferðamálaráðherra. „Svona helmingurinn af þessari skýrslu mun hafa drastísk áhrif á ferðaþjónustuna ef það er ekki gert í samhengi við aðra hluti sem við erum að reyna að færa þessa atvinnugrein í.“
Guðlaugur sagði það „alveg hárrétt“ að ráðuneyti þurfi að vinna saman. „Auðvitað höfum ég og ferðamálaráðherra rætt þessi mál oft og ég er búinn að kynna þessa skýrslu í ríkisstjórn. Og það er alveg skýr vilji af hálfu okkar beggja að vinna saman að þessum málum.“ Einnig þyrftu fleiri ráðuneytið að koma að vinnunni.
Sveinbjörn sagði mjög skiptar skoðanir um gjaldtöku meðal hagsmunaaðila sem rætt var við við gerð skýrslunnar. Þær væru allt frá því að ríkið ætti að“ byggja allt upp og allt ætti að vera frítt“ út í það að eðlilegt væri að rukka fyrir þá þjónustu sem væri í boði. Á sumum svæðum væri t.d. rukkað fyrir bílastæði og önnur hafi jafnvel verið „skúravædd“, eins og hann orðaði það, þ.e. komið fyrir skúrum til að rukka gesti. „Við í nefndinni höfum ekki verið að tala um skúravæðingu,“ hélt hann áfram. „Heldur að fundin verði lausn á því hvernig er hægt að gera þetta þannig að þetta verði jafnt og að peningarnir fari svo í uppbyggingu á svæðunum.“
Einhver þarf að borga reikninginn
„Það er ekkert ókeypis í þessu,“ sagði Guðlaugur Þór er hann var spurður hver hans sýn á málið væri. „Þeir sem eru að nota, hvort sem það eru salerni eða bílastæði og eru ekki að greiða, þá borgar einhver annar, sem heitir skattgreiðandi, fyrir það. Ég les það út úr þessum skoðanakönnunum að fólk sé ekki alveg tilbúið í það.“
Hvað hans skoðun varðar sagðist hann ekki bæði geta sagt að hann væri með niðurstöðu og síðan að hann ætli að fara af stað með vinnu til að fá sem flest sjónarhorn. Eins og hann stefnir að. „Öll þessi mál eru þess eðlis að þú ert ekki að koma með ákvörðun frá einhverju skrifborði í Reykjavík og segja svo landsmönnum að þetta sé niðurstaðan.“
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, minnti á kynningarfundinum á að náttúra Íslands væri stærsti hagsmunaaðilinn í þessu öllu. Skýrslan og umræða um hana væri „gríðarlega mannhverf“. Fólk ætti frekar að temja sér það sem hún kallaði „visthverfa hugsun“. Líka þegar kæmi að gjaldtöku.
Í umræðu um gjaldtöku á friðlýstum svæðum ætti ekki aðeins að tala um „hverjir eru að græða og hverjir eiga að borga“ heldur einnig hvaða áhrif gjaldtaka hefði á náttúruna. „Ef við látum kosta þúsund kall að kúka í einhverju salerni þá kannski þrýstir það ferðamönnum frekar í að gera það annars staðar þar sem við viljum ekki að þeir geri það.“