Alls þiggja 49,7 prósent leigjenda húsnæðisbætur og hefur þeim fjölgað um 1,6 prósentustig milli ára. Í septembermánuði voru greiddar út alls 542 milljónir króna í slíkar bætur til rúmlega 16.200 heimila.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um íbúðamarkaðinn sem birt var í gær.
Þar segir enn fremur að fjárhæðin sé um 0,2 prósentustigum lægri en greidd var út í septembermánuði í fyrra en þó tekið fram að þessi tala geti hækkað.
Hlutfall leigufjárhæðar af ráðstöfunartekjum hækkar
Hlutfall leigufjárhæðar af ráðstöfunartekjum leigjenda var árum saman í kringum 40 prósent. Það þýddi að fjórar af hverjum tíu krónum sem þeir sem eru á leigumarkaði höfðu í tekjur eftir skatta fóru í að borga leigu.
Það hlutfall hefur hækkað á síðustu tveimur árum. Í fyrra var það 44 prósent og í ár er það 45 prósent. Í skýrslu HMS segir að þetta geti verið vegna þess að tekjuhærri einstaklingar á leigumarkaði hafi náð að kaupa sér húsnæði eftir að vextir lækkuðu skarpt í fyrra. „Í því samhengi mátti einmitt greina versnandi fjárhag leigjenda á milli ára í fyrra en hins vegar virðist hann batna nú miðað við könnunina í ár. Afar lítið er um vanskil og aukast þau ekki á milli ára. Þá má einnig sjá að samningsstaða gagnvart leigusala versnar ögn á milli mælinga og hlutfall þeirra sem eru með þinglýstan leigusamning er á pari við könnunina í fyrra en þokast þó örlítið niður á við.“
Um tíu prósent allra leigjenda notar 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum til að borga húsaleigu og um fjórðungur leigjenda notar yfir helming tekna sinna í húsaleigu.
Vegið meðaltal leigufjárhæðar alls leiguhúsnæðis er sem stendur um 147 þúsund krónur á mánuði. að meðaltali er hægt að fá um 33 þúsund krónur í húsnæðisbætur til að standa undir slíkum leigukostnaði.
Töluverður munur er á því að leigja af einkaaðila og því að leigja af hinu opinbera. Að meðaltali kostar 168 þúsund krónur á mánuði að leigja af einkaaðila en 126 þúsund krónur á mánuði að leigja íbúð í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Því er þriðjungi dýrara að leigja af einkaaðila en af opinberum aðila.
Húsnæðisbætur sem leigjendur fá eru afar sambærilegar óháð því af hverjum þeir leigja.