Herdís Steingrímsdóttir, hagfræðidósent við Copenhagen Business tekur sæti Katrínar Ólafsdóttur í peningastefnunefnd Seðlabankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Herdís er með doktorspróf í hagfræði frá Columbia háskólanum í New York og meistarapróf í stærðfræðilegri hagfræði og hagrannsóknum frá London School of Economics. Rannsóknir Herdísar snúa að vinnumarkaðshagfræði og hefur hún hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín á þeim vettvangi.
Þá er Herdís meðlimur og umsjónarmaður ýmissa rannsóknasetra í Kaupmannahöfn sem greina hagfræðileg úrlausnarefni er varða lífeyrismál, ójöfnuð, hagfræði heimilanna o.fl.
Herdís er reglulegur pistlahöfundur í Vísbendingu, en þar hefur hún meðal annars skrifað greinar um áhrif aukinnar fjarvinnu á kynjajafnrétti á vinnumarkaðnum og jafnari skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra.
Í síðustu viku skrifaði svo Herdís um kynjahalla í háskólum á Íslandi, en þar er námsþátttaka karla mun minni heldur en kvenna. Samkvæmt henni þyrfti að grípa inn snemma til að minnka þennan halla, sem mögulega stafar af staðalímyndum og félagslegum normum.
Herdís tekur sæti Katrínar Ólafsdóttur, sem er hagfræðidósent við Háskólann í Reykjavík. Katrín hefur setið í nefndinni í tíu ár, en hún verið ein af tveimur utanaðkomandi nefndarmönnum þar.
Aðrir nefndarmenn peningastefnunefndar eru Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika. Þá situr Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, einnig í nefndinni sem utanaðkomandi nefndarmaður.