Herskáir Talíbanar í Pakistan gerðu árás á skóla í Peshawar í Pakistan í morgun sem kostaði 145 lífið, þar af 132 börn. Ekki er ólíklegt að tala látinna muni hækka, samkvæmt frásögnum fjölmiðla. Samtals eru 114 slasaðir og særðir en árásarmennirnir voru vopnaðir skotvopnum með sprengjuvesti um sig og stráfelldu börn, kennara og starfsfólk með skothríð. Þeir færðu sig á milli skólastofa og reyndu að skjóta alla sem þeir sáu, samkvæmt frásögn vitna og eftirlifenda sem BBC ræðir við í umfjöllun sinni.
Samtals voru 132 börn drepin í miskunnarlausri árás byssumana úr röðum Talíbana í Pakistan. Mynd: AFP
Herinn í Pakistan hefur nú fellt alla þá sem að árásinni stóðu eftir átta tíma bardaga, samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC. Mikil ringulreið er á staðnum, einkum á sjúkrahúsum, þar sem skelfingarlostnir foreldrar barna í skólanum reyna að ná sambandi við börn sín eða komast að því hvort þau eru á meðal þeirra sem létust. Lík hafa verið borin út í kistum af sjúkrahúsinu í Peshawar, en mikið öngþveiti hefur skapast við spítalann.
Þetta er mannskæðasta hryðjuverkaárás Talíbana til þessa í Pakistan. Forsætisráðherra Pakistan, Nawaz Sharif, hefur þegar lýst yfir þjóðarsorg og þjóðarleiðtogar um allan heim hafa fordæmt voðaverkin.
Uppfært: New York Times greinir frá því að tala látinna sé komin upp í 145, og mögulegt sé að hún hækki enn þar sem margir þeirra særðu eru með lífshættulega áverka. Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var frá því greint að 141 væri látinn.