Hildur Björnsdóttir, sem lýst hefur því yfir að hún sækist eftir oddvitasæti Eyþórs Arnalds á lista Sjálfstæðisflokks fyrir komandi kosningar, segir við Morgunblaðið í dag að það hafi komið sér á óvart að Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaga í Reykjavík, hafi ákveðið að haldið yrði leiðtogaprófkjör í aðdraganda kosninganna. Hún segist vonast til þess að fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins hafni tillögunni, en samþykki þess þarf til að hún verði að veruleika.
Eyþór Arnalds segir hins vegar við Morgunblaðið að hann telji niðurstöðu Varðar vera farsæla. Tillagan sé prófkjör þótt einungis verði kosið um fyrsta sætið.
Valgerður Sigurðardóttir, sitjandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tekur undir sjónarmið Hildar í stöðuuppfærslu á Facebook sem birtist seint í gærkvöldi. Þar segir hún: „Verð að játa að þetta kemur mér verulega á óvart, ég vona að Fulltrúaráð Sjálfstæðismanna hafni þessu og við höfum opið prófkjör líkt og gert var fyrir alþingiskosningarnar.“
Verð að játa að þetta kemur mér verulega á óvart, ég vona að Fulltrúaráð Sjálfstæðismanna hafni þessu og við höfum opið prófkjör líkt og gert var fyrir alþingiskosningarnar.
Posted by Valgerður Sigurðardóttir on Wednesday, December 15, 2021
Á meðal þeirra sem líka við þá færslu er Hildur, borgarfulltrúinn Katrín Atladóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Á þeim lista má einnig finna Söndru Hlíf Ocares, sem orðuð hafði verið við framboð í opnu prófkjöri, Gísla Frey Valdórsson, ráðgjafa hjá KOM, og Friðjón R. Friðjónsson, einn eigenda KOM og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Sama leið og síðast
Vörður ákvað í gærkvöldi að kosið verði um leiðtoga lista Sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík að óbreyttu. Það er sama leið og flokkurinn fór fyrir kosningarnar 2018 þegar Eyþór var valinn til að leiða lista flokksins.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins þarf að samþykkja leiðina til að hún verði að veruleika með 2/3 hluta atkvæða. Gangi það eftir verður kosið í kjörnefnd til að fylla önnur sæti á listanum. Búast má við því að leiðtogaprófkjörið fari fram í febrúar, en kosið er til sveitarstjórna í maí.
Ef sama aðferð verður notuð til að manna önnur sæti á listanum og í fyrir síðustu kosningar mun kjörnefnd svo raða í önnur sæti að loknu leiðtogakjöri og fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins síðan taka afstöðu til þeirrar tillögu.
Varð stærsti flokkurinn en náði ekki inn í meirihluta
Árið 2018 sóttust, ásamt Eyþóri þau Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, þáverandi borgarfulltrúar, Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi Alþingismaður og Viðar Guðjohnsen leigusali eftir því að leiða listann.
Enginn þeirra sem lutu í lægra haldi fyrir Eyþóri fékk sæti á lista flokksins í kjölfarið og eini sitjandi borgarfulltrúinn sem sat í efstu sætunum var Marta Guðjónsdóttir.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,8 prósent atkvæða í þeim kosningum og átta borgarfulltrúa kjörna. Fyrir vikið varð hann stærsti flokkurinn í borginni á ný. Það dugði þó ekki til þar sem Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn mynduðu meirihluta og Dagur B. Eggertsson hélt áfram sem borgarstjóri.