Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að úr kjörkössunum í kosningunum fyrir rúmri viku síðan hafi birst skýrt ákall á breytt stjórnmál. Að hennar mati voru niðurstöðurnar skýrar. Sitjandi meirihluti féll og þeir flokkar sem stóðu utan hans fengu nálægt 60 prósent atkvæða.
Þetta segir Hildur hafa verið ákall kjósenda eftir breytingum og að þeir hafi sömuleiðis verið að hafna klækjastjórnmálum úr Ráðhúsi Reykjavíkur. „Nákvæmlega sömu klækjastjórnmálum og þrjóskubandalag Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata beitir nú við meirihlutaviðræður. Bandalagið þráskallast við að halda völdum sem kjósendur vilja ekki fela þeim lengur – með útilokunum og þvingunum. Það getur tæplega talist upptaktur að farsælu samstarfi fyrir Framsóknarflokkinn.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Hildur birti á Facebook í dag.
Þórdís Lóa segir andstöðuflokkanna hafa tapað
Tilefni hennar er að tilkynning Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, um að það sé sé alveg skýrt að flokkur hennar sé í bandalagi með Pírötum og Samfylkingunni hvað varðar meirihlutaviðræður í kjölfar borgarstjórnarkosninganna og að flokkurinn ætli ekki að leita annað. Bandalagið sé augljós kostur þegar málefnaáherslur Viðreisnar í kosningabaráttunni séu skoðaðar, sérstaklega hvað varðar skipulags-, samgöngu- og loftslagsmál. Viðreisn vilji láta reyna á að bandalagið hefji meirihlutaviðræður við Framsóknarflokkinn, en slíkur meirihluti hefði tæplega 56 prósent atkvæða á bakvið sig og 13 af 23 borgarfulltrúum.
Hildur biðlar til Framsóknar
Án Viðreisnar á Sjálfstæðisflokkurinn ekki leið í meirihluta en Samfylkingin, Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa allir útilokað samstarf við flokkinn og Vinstri græn hafa gefið það út að þau muni ekki setjast í meirihluta eftir að hafa beðið afhroð í síðustu kosningum. Án Viðreisnar getur Sjálfstæðisflokkurinn einungis náð ellefu borgarfulltrúum með samstarfi við Framsókn og Flokk fólksins, sem dugir ekki í meirihluta.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, hefur boðað bakland sitt á fund í kvöld þar sem hann ætlar að ræða það sem virðist vera eini möguleikinn í stöðunni sem stendur: meirihluti með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn.
Hildur er þó ekki sammála því að þetta sé eini möguleikinn. Í stöðuuppfærslu sinni segir hún að það þurfi enginn að undirgangast þær þvinganir sem bandalagið bjóði upp á að hennar mati. „Það eru margir möguleikar á borðinu við myndun meirihluta. Ekki síst ef flokkarnir velja að svara ákalli kjósenda eftir málefnalegum stjórnmálum og aukinni samvinnu um mikilvæg framfaramál. Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn til samtals við alla flokka um verkefni næsta kjörtímabils. Við gengum óbundin til kosninga, boðuðum breytingar og vorum heiðarleg gagnvart okkar kjósendum. Nú reynir á Framsóknarflokkinn – og auðvitað alla flokka innan borgarstjórnar - að hafa hugrekkið til að svara kröfu kjósenda um breytt stjórnmál.“
Niðurstöður nýafstaðinna borgarstjórnarkosninga voru skýrar. Meirihlutinn féll með afgerandi hætti. Þeir flokkar sem...
Posted by Hildur Björnsdóttir / Borgarfulltrúi on Monday, May 23, 2022