Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks mun víkja úr skipulags- og samgönguráði borgarinnar og taka sæti í skóla- og frístundaráði í staðinn. Marta Guðjónsdóttir mun taka sæti Hildar í skipulags- og samgönguráði og víkja úr skóla- og frístundaráði. Kosning um breytta skipan í þessum nefndum og reyndar fleirum fer fram á borgarstjórnarfundi á morgun.
Aðspurð segir Hildur í samtali við Kjarnann að verið sé að gera þessar breytingar að hennar beiðni. „Ég held við þurfum að setja skólamálin ennþá meira á oddinn,“ segir Hildur og nefnir að ekki sé búið að leysa „leikskólavandann“ og auk þess standi grunnskólar borgarinnar ekki vel, hvorki í innlendum né alþjóðlegum samanburði.
Hildur, sem var í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í síðustu borgarstjórnarkosningum, hefur verið einn þriggja fulltrúa flokksins í skipulags- og samgönguráði það sem af er kjörtímabili ásamt oddvitanum Eyþóri Arnalds og Katrínu Atladóttur.
Stundum hefur það vakið athygli að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur ekki deilt sýn á skipulagsmálin í borginni, meðal annars í umræðum um Borgarlínu. Þær Hildur og Katrín hafa þá talað með öðrum hætti um fyrirhugaða uppbyggingu hágæða almenningssamgöngukerfis á höfuðborgarsvæðinu en sumir aðrir kjörnir fulltrúar flokksins í borginni.
Hildur segir að hún muni áfram sitja í borgarráði, þar sem öll stærstu skipulagsmálin séu tekin fyrir til afgreiðslu og á henni er að heyra að hún muni síður en svo hætta að láta skipulagsmál sig varða þrátt fyrir að víkja úr skipulags- og samgönguráði.
Marta ætlar að vinna eftir samþykktum Varðar
Marta Guðjónsdóttir, sem leysir Hildi af hólmi í skipulagsmálunum, segir við Kjarnann að henni lítist „ljómandi vel á þetta.“ „Ég hef brennandi áhuga á skipulagsmálum og hef beitt mér mikið í málaflokknum,“ segir Marta.
Spurð út í þær áherslur sem hún taki með sér inn í starf ráðsins segist Marta „fyrst og síðast“ ætla að fara eftir samþykktum Reykjavíkurþings Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hvað skipulagsmálin varðar.
„Ég mun halda mig við það eins og ég hef gert hingað til,“ segir Marta.
Í stjórnmálaályktun síðasta Reykjavíkurþings Varðar, sem haldið var árið 2019, sagði meðal annars að þétting byggðar á ákveðnum svæðum í borginni, eins og hún hefði verið framkvæmd undanfarin ár, væri „á villigötum“ og hefði „víða haft skaðleg áhrif á umhverfi sitt.“
Einnig myndu „Borgarlína og veggjöld“ ekki ein og sér leysa samgönguvanda Reykjavíkur. „Umferðarvandi borgarinnar verður aðeins leystur með fjölþættum lausnum þar sem íbúum gefst kostur að á að velja þann samgöngumáta sem hentar best hverju sinni. Stefna ber að því að Sundabraut verði lögð sem fyrst,“ sagði í stjórnmálaályktun Varðar.