Hildur Björnsdóttir er nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og leiðir hann í komandi borgarstjórnarkosningum. Í prófkjöri flokksins sem lauk í gær hlaut hún 49,2 prósent atkvæða í fyrsta sætið en fékk harða samkeppni frá Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Alls vildu 37,1 prósent þeirra sem greiddu atkvæði að hún leiddi listann. Hildur náði því ekki að fá stuðning meirihluta þeirra sem tóku þátt í prófkjörinu.
Ragnhildur Alda lenti í öðru sæti og Kjartan Magnússon, sem var borgarfulltrúi um margra ára skeið en var ekki í framboði 2018, er í því þriðja. Kjartan sóttist eftir öðru sætinu. Næst koma tveir sitjandi borgarfulltrúar, Marta Guðjónsdóttir sem fékk fjórða sætið en sóttist eftir öðru sætinu, og Björn Gíslason, sem sóttist eftir þriðja sætinu.
Friðjón R. Friðjónsson, einn eiganda almannatengslafyrirtækisins KOM og varaþingmaður, sóttist eftir öðru sætinu á listanum en lenti í því sjötta í prófkjörinu. Helgi Áss Grétarsson vildi fimmta sætið en endaði í því sjöunda og Sandra Hlíf Ocares sóttist eftir þriðja sætinu en fékk áttunda.
Jórunn Pála Jónasdóttir varaborgarfulltrúi lenti í níunda sæti og Birna Hafstein í því tíunda. Valgerður Sigurðardóttir, sitjandi borgarfulltrúi, sóttist eftir þriðja sætinu en lenti í því ellefta.
Alls kusu 5.545 í prófkjörinu. Gild atkvæði voru 5.292 atkvæði. Auð og ógild atkvæði eru 253.
Ólík öfl tókust á innan flokksins
Hildur, sem var í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins árið 2018 á eftir núverandi oddvita Eyþóri Arnalds, hefur þótt hafa frjálslyndari og framsæknari skoðanir á borgarmálum en margir hinna borgarfulltrúa flokksins.
Hún hefur til að mynda staðið fyrir allt annarri sýn í skipulags- og samgöngumálum en borgarfulltrúarnir Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason. Í grein sem hún skrifaði í mars í fyrra í Morgunblaðið sagði meðal annars: „Lausn samgönguvandans mun ekki felast í hraðbraut gegnum Fossvogsdalinn og mislægum gatnamótum inn í Elliðaárdalinn. Lausnin mun felast í betra borgarskipulagi, dreifðari atvinnutækifærum og aukinni fjarvinnu – en ekki síst breyttum ferðavenjum og fjölbreyttum valkostum.“. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, hrósaði Hildi fyrir greinina í bók sinni „Nýjá Reykjavík“ sem kom út seint á síðasta ári. Hann sagði Hildi hafa „jarðað“ málflutning ýmissa talsmanna gamalla úrræða í samgöngumálum þar sem bílinn væri í algjörum forgangi. „Með þessari öflugu grein gerði Hildur algjörlega ljóst hvar hún stendur í afstöðunni til stærstu spurninganna um samgöngumál og þróun borgarinnar og kallaði eftir hugrekki til breytinga.“
Íhaldsöflin heilt yfir sigurvegari prófkjörsins
Frjálslyndari frambjóðendurnir riðu hins vegar ekki feitum hesti frá prófkjörinu. Ragnhildur Alda, Marta, Kjartan, Björn og Helgi Áss eru öll með sambærilegar og íhaldssamar áherslur, sérstaklega þegar kemur að samgöngu- og skipulagsmálum þar sem þau vilja brjóta mikið nýtt land undir húsnæðisuppbyggingu og greiða fyrir einkabílnum frekar en að þétta áfram byggð og fjárfesta stórt í almenningssamgöngum eins og borgarlínu í sérrými, líkt og samþykkt hefur verið í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Sjálfstæðisflokkurinn er í dag með átta borgarfulltrúa og ef hann næði sama árangri í kosningunum í maí og hann náði 2018, þegar hann fékk 30,8 prósent atkvæða, myndu einungis tveir þeirra sem náðu inn í efstu átta sætin í prófkjörinu í gær utan Hildar teljast til frjálslyndari arms borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, Friðjón sem sóttist eftir öðru sætinu en fékk sjötta, og Sandra, sem sóttist eftir þriðja sætinu en fékk það áttunda.
Flokkurinn langt frá kjörfylgi í nýjustu könnun
Nýjasta könnun Maskínu um fylgi flokka í borginni, sem var birt á föstudag, sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er þó ansi langt frá því að mælast í kjörfylgi. Þar sögðust 22 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn í maí. Miðað við það myndi borgarfulltrúum hans fækka og bæði Friðjón og Sandra gætu þar verið í hættu að óbreyttu.
Þeir fjórir flokkar sem mynda meirihluta í Reykjavík: Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn, mælast hins vegar með 54 prósent sameiginlegt fylgi í sömu könnun en fengu 46,4 prósent 2018. Samfylkingin tapar umtalsverðu fylgi samkvæmt könnuninni en er samt stærstur flokkanna í meirihlutanum. Píratar bæta hins vegar miklu fylgi við sig og Vinstri græn vaxa myndarlega líka. Viðreisn er á mjög svipuðum slóðum og fyrir fjórum árum.
Röð frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gær og atkvæðafjöldi í sæti var eftirfarandi:
- sæti Hildur Björnsdóttir með 2.603 atkvæði í 1. sæti og 3.616 atkvæði alls.
- sæti Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir með 2.257 atkvæði í 1.-2. sæti og 3.254 atkvæði alls.
- sæti Kjartan Magnússon með 1.815 atkvæði í 1.-3. sæti og 3.224 atkvæði alls.
- sæti Marta Guðjónsdóttir með 1.794 atkvæði í 1.-4. sæti og 2.772 atkvæði alls.
- sæti Björn Gíslason með 1.555 atkvæði í 1.-5. sæti og 2.484 atkvæði alls.
- sæti Friðjón R. Friðjónsson með 1.688 atkvæði í 1.-6. sæti og 2.293 atkvæði alls.
- sæti Helgi Áss Grétarsson með 1.955 atkvæði í 1.-7. sæti og 2.556 atkvæði alls.
- sæti Sandra Hlíf Ocares með 2.184 atkvæði í 1.-8. sæti og 2.433 atkvæði alls.
- sæti Jórunn Pála Jónasdóttir með 2.396 atkvæði í 1.-9. sæti.
- sæti Birna Hafstein með 2.319 atkvæði í 1.-9. sæti.
- sæti Valgerður Sigurðardóttir með 2.231 atkvæði í 1.-9. sæti.