Eftir hverja hitabylgjuna á fætur annarri í sumar og mikla þurrka fór loks að rigna í Frakklandi á þriðjudagskvöld. Og það rignir enn. Svo mikil var rigningin að í gær flæddi um gólf neðanjarðarlestarstöðva Parísarborgar. „Þetta var óhugnanlegt,“ lýsir einn farþeginn því þegar flóðbylgja flæddi niður stiga biðstöðvarinnar og hann stóð allt í einu í vatni upp að ökklum. Franska veðurstofan segir að á einni klukkustund hafi fallið úrkoma sem búast hefði mátt við á einum mánuði.
Í dag og næstu daga eru í gildi appelsínugular veðurviðvaranir vegna rigninganna á mörgum svæðum í Frakklandi. Þrumuveður og úrkoma í bæði formi regns og hagléls er því áfram að vænta.
Rigningarveðrið skall á með nokkrum ofsa á þriðjudagskvöldið. Vissulega voru droparnir kærkomnir. Gróður hefur skrælnað og vatnsból þornað upp vegna óvenju mikillar þurrkatíðar í sumar. En þetta var steypiregn og vatnið óx og óx. Þetta olli því að samgöngur fóru úr skorðum því holræsakerfi Parísar og víðar höfðu ekki undan. Stórir pollar og lækir mynduðust á götum og ollu umferðarteppu.
Nokkrar neðanjarðarlestarstöðvar urðu að loka inngöngum sínum um hríð vegna veðursins. Í gær, miðvikudag, voru allar samgöngur komnar í samt horf og það lítur út fyrir að engar skemmdir hafi orðið á innviðum.
Í suðurhluta Frakklands hefur stormviðri geisað og fór vindur í nágrenni Marseille upp í 40 metra á sekúndu í hviðum. Veðurstöðin á Eiffel-turninum sýndi yfir 20 metra á sekúndu. Yfirborð árinnar Signu hækkaði um 35 sentímetra á um sólarhring.
Franska veðurstofan varar við áframhaldandi stormviðri með mikilli úrkomu það sem eftir er vikunnar.
Miklir gróðureldar hafa fylgt þurrkum og hitum sumarsins og talið er að allt að 700 þúsund hektrar lands hafi brunnið. Síðustu fimmtán ár er ársmeðaltalið um 190 þúsund hektrar. Svæðið sem hefur brunnið jafnast á við um fimmtung allrar Belgíu. Mestir hafa eldarnir verið á Spáni. Þar hafa rúmlega 265 þúsund hektrar lands brunnið. Í Frakklandi hafa brunnið að minnsta kosti 62 þúsund hektrar en ársmeðal síðustu ára er í kringum 60 þúsund.