Pia Kjærsgaard, fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins hefur verið kjörin forseti danska þingsins. Hún er fyrsta konan til þess að gegna embætti þingforseta á danska þinginu.
Hún tekur við af Mogens Lykketoft, þingmanni sósíaldemókrata. Hún var kjörin í embætti með 87 atkvæðum þingmanna, 16 voru á móti og átta sátu hjá.
Kjærsgaard er umdeildur stjórnmálamaður og var formaður Danska þjóðarflokksins frá stofnun og til haustsins 2012. Hún var meðal fjögurra fyrrum félaga í Framfaraflokknum, sem fóru úr flokknum og stofnuðu nýjan árið 1995. Danski þjóðarflokkurinn hefur mjög eindregna afstöðu í málefnum innflytjenda, vill takmarka fjölda þeirra mjög, er gagnrýninn á Evrópusambandið og lætur sér annt um málefni tekjulægri þegna þjóðfélagsins.
„Ég mun kappkosta að vera forseti alls þingsins. Ég vil vera trúnaðarfulltrúi fyrir alla, óháð hvaða flokki þeir eru í,“ sagði hún þegar hún hafði verið kjörin í embættið í morgun.