46 ára þýskur karlamaður liggur þungt haldinn í lífshættu eftir alvarlegt bílslys við bæinn Gråsten á Jótlandi í gær. Lögregluyfirvöld þakka vegfarendum sem komu að slysinu fyrir snör handtök á slysstað, og þá sérstaklega ungri íslenskri konu sem var á meðal þeirra, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt. Danski fréttamiðillinn Jydske Vestkysten greinir frá málinu á vefsíðu sinni.
Tveir fólksbílar skullu saman á Krusåvej skammt frá Gråsten. Í öðrum bílnum voru tveir Þjóðverjar og dönsk hjón í hinum, kona á sjötugsaldri og karlmaður á sextugsaldri. Bílarnir skullu saman þegar Þjóðverjarnir reyndu framúrakstur. Fjórmenningarnir slösuðust allir í árekstrinum, fjórir sjúkrabílar voru sendir á vettvang, en þá sátu tveir farþegar fastir í bílunum. Tækjabíll var notaður til að skera þá lausa, en þá höfðu hinir tveir farþegarnir verið fjarlægðir úr bílunum við illan leik.
Íslenskur hjúkrunarfræðingur tók við stjórninni á slysstað
Eins og áður greinir er annar Þjóðverjinn í lífshættu eftir slysið en landi hans, 52 ára karlmaður sem ók bílnum, er alvarlega slasaður en þó ekki í lífshættu. Þá er danska konan sömuleiðis alvarlega slösuð, en eiginmaður hennar slasaðist minna.
Danski fréttamiðillinn hefur eftir yfirmanni hjá lögreglunni í Gråsten að viðbrögð vegfarenda á slysstaðhafi skipt sköpum. „Þegar við komum á vettvang voru tíu til tólf vegfarendur á vettvangi sem voru að huga að hinum slösuðu,“ segir lögreglumaðurinn Erik Lindholdt í samtali við Jydske Vestkysten. „Þeim var stjórnað af ungri konu, hjúkrunarfræðingi frá Íslandi, sem stóð sig stórkostlega. Hún var ekki fyrst á vettvang en skipulagði björgunarstarfið og bjargaði þar með því sem bjargað varð. Allir sem voru á staðnum eiga mikið lof skilið, þeirra framlag kann að hafa skipt sköpum.“