Hlutabréfamarkaðir í Evrópu tóku dýfu við opnun í morgun vegna stöðunnar í Grikklandi. Mikil óvissa ríkir um lendingu á skuldavanda Grikkja en samningaviðræðum við önnur evruríki um frekari neyðarlán var slitið á laugardag. Í kjölfarið tilkynnti Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, að málið, og samningstillögur lánardrottna, fari í þjóðaratkvæði þann 5. júlí næstkomandi.
Í London féll hlutabréfavísitalan um tvö prósent við opnun markaða og í Þýskalandi féll DAX vísitalan um ríflega þrjú prósent. Þróunin er sú sama og víða í Asíu fyrr í dag, þar sem Nikkei vísitalan í Japan hafði lækkað um nærri þrjú prósent. Evran hefur einnig átt undir högg að sækja og veikst gagnvart helstu gjaldmiðlum.
Á vef fréttasíðunnar Business Insider er fjallað um framvinduna undir fyrirsögninni „Evrópskir markaðir fá á baukinn og enginn veit hver sigrar grísku þjóðaratkvæðagreiðsluna“. Í greininni segir að enginn viti hvernig atkvæðagreiðslan fer né hvað niðurstaðan mun hafa í för með sér. Ef gríska þjóðin segir já við samningum lánardrottna, sem þó eru ekki fullmótaðir, myndi það fela í sér uppfyllingu þeirra skilyrða sem í samningunum eru lögð fram, meðal annars mikill niðurskurður hjá hinu opinbera. Með þeirri niðurstöðu þykir það líklegra en ekki að Grikkir haldi áfram í evrusamstarfinu.
What next for #Greece? We put the likelihood at 60% of voters backing the govt's rejection of creditor conditions. http://t.co/GldLpUT1AZ
— The EIU Europe (@TheEIU_Europe) June 29, 2015
Hópur sérfræðinga hjá tímaritinu The Economist telur 60 prósent líkur á að grískir kjósendir styðji við ríkjandi stjórnvöld og hafni samningnum. Alls er þó óvíst hvort atkvæðagreiðslan hafi nokkurt gildi þegar uppi er staðið. Hluti af fyrra neyðarláni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Grikklands fellur á gjalddaga á þriðjudag og það er óvíst að gjalddaga verði frestað svo auðveldlega.
Grísk stjórnvöld tilkynntu í gær að bankar í landinu myndu ekki opna í dag og hefur verið ákveðið að þeir verði lokaðir alla vikuna. Einungis verður hægt að taka út 60 evrur á dag úr hraðbönkum á meðan lokunin stendur yfir, jafnvirði tæplega níu þúsund króna.