Um það bil 32 þúsund einstaklingar áttu skráð hlutabréf á Nasdaq Iceland fyrir viku síðan, eða um 9 prósent af heildaríbúafjölda Íslands. Í lok árs 2019 áttu einungis 8 þúsund einstaklingar hlutabréf og hafði því þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði fjórfaldast á innan við tveimur árum.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Nasdaq Iceland sem birt var í gær. Talningin á fjölda einstaklinga sem eiga hlutabréf var gerð þann 23. júní, en síðan þá hafa tvö hlutafjárútboð átt sér stað í Kauphöllinni, annars vegar í flugfélaginu PLAY og hins vegar í tölvuleikjafyrirtækinu Solid Clouds. Nasdaq Iceland sagði í færslu sinni að áhugavert yrði að sjá hvað gerist í kjölfar þessara útboða.
Viðbúið að fyrirtækjum muni fjölga á næstunni
Eggert Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Kviku eignarstýringu, skrifaði um hlutabréfamarkaðinn hér á landi í tímaritinu Vísbendingu fyrr í mánuðinum. Þar sagði hann að það myndi ekki koma á óvart ef skráð félög, sem verða 25 talsins þegar PLAY og Solid Clouds verða opnuð fyrir viðskipti, muni verða meira en 30 fyrir lok árs. Þó segir hann að langt sé í land að ná þeim fjölda skráðra fyrirtækja sem sást í kringum síðustu aldamót, en þá voru þau flest 75 talsins.
Fjölgaði um 11 þúsund á síðustu vikum
Eggert sagði einnig að góð ávöxtun á hlutabréfamarkaði undanfarna mánuði hafi vafalaust aukið áhuga og traust fjárfesta á skráðum hlutabréfum. Í byrjun mánaðarins, fyrir hlutafjárútboð Íslandsbanka, áttu 21 þúsund einstaklingar hlutabréf, samkvæmt viðtali Magnúsar Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar í Dagmálum á Morgunblaðinu. Því hefur einstaklingum sem eiga hlutabréf fjölgað um 11 þúsund á einum mánuði.
Töluvert minna en fyrir hrun
Hins vegar er hlutabréfaeign almennings enn langt frá því að vera svipuð og hún var á árunum fyrir hrun. Samkvæmt færslu Nasdaq Iceland áttu vel yfir 50 þúsund einstaklingar hlutabréf á árunum 2006 og 2007, en sá fjöldi hafði svo minnkað niður í 40 þúsund árið 2008. Á árunum 2010-2019 var svo fjöldi einstaklinga sem áttu hlutabréf undir tíu þúsund.