Á rúmu ári hafa alls verið veitt 294 hlutdeildarlán, sem eiga að nýtast tekju- og eignalitlum einstaklingum til kaupa á fyrstu fasteign. Um er að ræða vaxta- og afborganalaus viðbótarlán frá ríkinu sem geta numið allt að 20 prósentum af kaupverði tiltekinna fasteigna. Ríkið fær síðan greitt til baka þegar fasteignin er seld.
Heildarfjárhæð þessara 294 lána nam 2.438 milljónum króna, samkvæmt frétt Fréttablaðsins í vikunni, sem byggði á svörum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við fyrirspurn miðilsins.
Það er um einum og hálfum milljarði lægri upphæð en áætlanir gerðu ráð fyrir þegar lög um hlutdeildarlán urðu voru samþykkt á Alþingi í upphafi 2020. Þá var gengið út frá því að um fjórir milljarðar króna yrðu lánaðir árlega næstu tíu ár og á að heildarskuldbindingar ríkissjóðs vegna lánanna myndu nema 40 milljörðum á því tímabili.
Vert er þó að taka fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í síðasta mánuði gerðu áætlanir enn ráð fyrir því að hlutdeildarlán að upphæð 3,6 milljarða króna yrðu veitt á þessu ár. Í áætlunum næsta árs svo gert ráð fyrir 3,75 milljarða króna útlánum í þessum lánaflokki.
Sérstakir ferlar um umframeftirspurn skrifaðir inn í reglugerð
Samkvæmt reglugerð um þessa tegund lána skal úthluta þeim sex sinnum á ári, þrisvar sinnum á fyrri helmingi árs og þrisvar sinnum á síðari helmingi ársins. Inn í reglugerðina eru skrifaðar sérstakar reglur um hvernig skuli bregðast við ef það fjármagn sem sé til úthlutunar hverju sinni dugi ekki til að anna eftirspurn eftirlánum.
Ef sú staða kemur upp, einhverntímann á næstu árum, skal dregið af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjenda sem uppfylla skilyrði fyrir því fá lánin og hljóta þeir þá hlutdeildarlán eða lánsvilyrði, eftir því hvort kauptilboð leggur fyrir eða ekki.
Umsækjendur með samþykkt kauptilboð í íbúðir skulu njóta forgangs að hlutdeildarlánum umfram þá sem ekki hafa þegar fengið samþykkt kauptilboð, segir í reglugerðinni, auk þess sem þar er imprað á því að minnsta kosti 20 prósent hlutdeildarlána skuli renna til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Engin íbúð til í dýrasta flokki
Í reglugerðinni um hlutdeildarlánin er skilgreint fyrir hverskonar íbúðum er lánað. Hærri lán eru veitt á höfuðborgarsvæðinu en utan þess, og landsbyggðinni er skipt upp í „vaxtarsvæði“ og svæði utan vaxtarsvæða.
Að hámarki er hægt að fá hlutdeildarlán fyrir íbúð sem kostar 58,5 milljónir króna, en það þarf þá að vera 4 svefnherbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem er að lágmarki 100 fermetrar. Hún þarf svo að vera ný, eða í það minnsta nýuppgerð sem íbúðarhúsnæði.
Engin íbúð, hvorki ný né eldri, á höfuðborgarsvæðinu uppfyllir þessi skilyrði, samkvæmt athugun Kjarnans á fasteignavef Vísis í gær. Bent hefur verið á það að undanförnu að heilt yfir séu sárafáar íbúðir sem uppfylli skilyrði hlutdeildarlánanna til sölu á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir.