Störfum á Íslandi fjölgaði hratt á öðrum ársfjórðungi og meðalvinnustundum fjölgaði í fyrsta sinn frá árinu 2019. Heildarvinnustundum fjölgaði um 9,1 prósent milli ára sem er mesta fjölgun frá upphafi vinnumarkaðskönnunar Hagstofu Íslands.
Atvinnuleysi hefur dregist skarpt saman samhliða auknum efnahagssumsvifum – það var 12,8 prósent í janúar í fyrra en 3,2 prósent í lok júlí – og hlutfall fyrirtækja sem segjast skorta starfsfólk hefur einungis einu sinni mælst hærra. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði um 3,8 prósent að meðaltali í ár en þokist upp í liðlega fjögur prósent þegar líður á spátímann sem er það atvinnuleysi sem talið er samræmast verðstöðugleika.
Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu ritsins Peningamál sem Seðlabanki Íslands birti í síðustu viku.
Heimilin að eyða miklu meira en Seðlabankinn reiknaði með
Spennan sem er að skapast er tilkomin vegna aukins hagvaxtar. Seðlabanki Íslands býst nú við því að hagvöxtur verði 5,9 prósent í ár, sem er 1,3 prósentustigi meiri hagvöxtur en bankinn spáði í maí. Breytingin er að mestu tilkomin vegna þess að heimili landsins hafa eytt meira í neyslu síðan þá en Seðlabankinn hafði reiknað með. Neysluútgjöld heimila jukust um 8,8 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, en Seðlabankinn hafði spáð því að þau myndu einungis aukast um 3,8 prósent. Þar munar heilum fimm prósentustigum.
Það kallar á fleiri störf til að framleiða, eða flytja inn, þær vörur og þjónustur sem heimilin eru að kaupa. Vísbendingar eru einnig um að einkaneysla hafi áfram verið kröftug á öðrum ársfjórðungi, og talið er að hún hafi aukist um 14 prósent milli ára á þeim fjórðungi.
Mikil aukning ferðamanna kallar á fleira starfsfólk
Hin stóra ástæða þess að hagvöxtur verður að öllum líkindum meiri en reiknað var með er fjölgun ferðamanna. Seðlabankinn spáir því nú að tæplega 1,7 milljónir ferðamanna komi til Íslands á þessu ári. Það eru umtalsvert fleiri en bankinn bjóst við að myndu koma hingað þegar hann spáði því í maí að fjöldinn yrði 1,3 milljónir.
Þá hefur bankinn breytt spá sinni um komu ferðamanna á næsta ári á þann veg að hann býst nú við 1,9 milljón ferðamanna árið 2023, sem er um 200 þúsund fleiri en hann spáði í vor.
Fjöldi ferðamanna sem heimsóttu Ísland náði hámarki árið 2018 þegar rúmlega 2,3 milljónir slíkra komu hingað til lands. Erlendir farþegar voru um tvær milljónir árið 2019 en fjöldi þeirra hrundi með kórónuveirufaraldrinum og árið 2020 náðu þeir ekki hálfri milljón. Fara þarft aftur til ársins 2012 til að finna ár sem jafn fáir erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland. Í fyrra voru þeir svo um 700 þúsund alls, enda faraldurinn enn á fullu gasi með tilheyrandi ferðatakmörkunum.
Þessi hraða viðspyrna ferðaþjónustu kallar á gríðarlega marga nýja starfsmenn í geiranum en erfiðlega hefur gengið að manna þau öll.