Á öðrum ársfjórðungi var hlutfall fyrstu kaupenda af þeim sem eiga viðskipti með íbúðarhúsnæði 31,4 prósent. Síðastliðið ár hefur þetta hlutfall verið hærra heldur en frá því að Þjóðskrá hóf að taka saman og birta upplýsingar um fjölda þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Hæst fór þetta hlutfall á þriðja ársfjórðungi síðasta árs þegar það stóð í tæpum 32 prósentum en sé litið til síðastliðins árs er hlutfallið 31,5 prósent. Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár.
Hæst var hlutfallið á Norðurlandi vestra á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Af viðskiptum með íbúðarhúsnæði var 36,4 prósent vegna fyrstu kaupa á svæðinu. Alls voru eignarheimildir á svæðinu 44 talsins á ársfjórðungnum og af þeim voru 16 fyrstu kaup. Hlutfallið hefur aðeins einu sinni verið hærra á svæðinu, á fjórða ársfjórðungi í fyrra var hlutfallið 37,9 prósent.
Flest viðskipti áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlutfall fyrstu kaupenda aldrei verið jafn hátt þar, 34,2 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu var fjöldi fyrstu kaupa var 717. Sú tala hefur vissulega verið hærri, var 795 á þriðja og fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þá var heildarfjöldi viðskipta mun meiri og hlutfallið því ekki jafn hátt.
Hlutfallið hefur farið hækkandi frá því að Þjóðskrá hóf að halda utan um þessar tölur. Lægst var það á fyrsta fjórðungi ársins 2009, innan við 7 prósent. Undir lok árs 2010 var það komið yfir 10 prósent og á fyrsta ársfjórðungi árið 2017 fór það fyrst yfir 25 prósent.
Hærri veðsetning í boði fyrir fyrstu kaupendur
Ýmis úrræði eru í boði fyrir fyrstu kaupendur. Til að mynda þurfa fyrstu kaupendur ekki að greiða lántökugjald hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Arion Banka, Íslandsbanka og Landsbankanum. Þá þurfa fyrstu kaupendur að greiða helmingi lægra stimpilgjald heldur en gengur og gerist, 0,4 prósent í stað 0,8 prósent.
Fyrstu kaupendur geta einnig nýtt sér séreignarsparnað skattfrjálst upp í útborgun og svo er hámarks veðsetningarhlutfall fyrstu kaupenda hærra heldur en annarra, 90 prósent í stað 80 prósenta. Möguleikar fyrstu kaupenda til þess að taka með svo háu veðsetningarhlutfalli virðast þó vera takmarkaði hjá stóru bönkunum þremur.
Á heimasíðum Arion Banka og Landsbankans segir að fyrstu kaupendur geti fengið lánað fyrir 85 prósent af markaðsvirði fyrstu eignar en hjá Íslandsbanka geta fyrstu kaupendur fengið lánað fyrir 80 prósentum af markaðsvirði auk þess sem þeim stendur til boða viðbótarlán sem getur fleytt þeim alla leið upp í 90 prósent af kaupverði en lánið getur að hámarki orðið þrjár milljónir króna.