Í september seldust 40,7 prósent allra íbúða sem seldar voru á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra. Sérbýli voru aðeins líklegri til að seljast yfir ásettu verði en fjölbýli en það skeikaði þó ekki miklu. Íbúðir á landsbyggðinni fara mun sjaldnar yfir ásettu verði en þær sem seldar eru á höfuðborgarsvæðinu og ódýrustu íbúðirnar, sem seljast undir 35 milljónum króna, seldust sjaldnar yfir ásettu verði en aðrar íbúðir.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um húsnæðismarkaðinn sem birt var í morgun.
Fátt bendir til þess að ástandinu sé að ljúka
Mikil eftirspurnarþrýstingur er eftir húsnæði og framboð hefur á sama tíma dregist saman. Margt skýrir það. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á jókst sparnaður landsmanna þar sem þeir eyddu minna í aðra hluta eins og ferðalög erlendis og ýmis konar afþreyingu, einfaldlega vegna þess að það var ekki hægt. Samhliða gengu í gildi launahækkanir og stjórnvöld og Seðlabankinn gripu til margháttaðra aðgerða til að örva efnahagslífið. Meðal þeirra var að afnema sveiflujöfnunarauka sem lagðist á eigið fé banka til að auka útlánagetu þeirra og að lækka stýrivexti niður í áður óséðar lægðir, eða 0,75 prósent.
Þessi þróun hefur haldið áfram í ár og tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 15,5 prósent í september og hækkaði úr 14,8 prósent í ágúst. Mest mældist tólf mánaða hækkunin á Suðurnesjum eða 21,7 prósent og þar á eftir á Vestfjörðum, 18 prósent. Samkvæmt greiningu HMS hefur fasteignaverð hefur hins vegar hækkað langminnst á Norðausturlandi, eða um tvö prósent, á síðustu 12 mánuðum.
Fátt virðist benda til að þessu ástandi sé að ljúka, en gerðum kaupsamningum fjölgaði milli mánaða þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi gripið til ýmissa aðgerða til að takmarka útlán til íbúðarkaupa og að vextir hafi hækkað nokkuð skarpt frá því í vor.
Sölutími íbúða með því lægsta í sögunni
Þessi staða hefur leitt til þess að íbúðum sem eru til sölu hefur fækkað mikið. Í greiningu HMS segir að aðeins um 1.320 íbúðir séu til sölu á landinu öllu nú en til samanburðar voru þær yfir 1.400 í byrjun septembermánaðar og nærri 4.000 þegar mest var í lok maí 2020.
Samhliða hefur sölutími íbúða dregist verulega saman og er nú með því lægsta sem nokkru sinni hefur mælst.
Á höfuðborgarsvæðinu var meðalsölutími í september aðeins 38,7 dagar sem er nokkuð nálægt því lægsta sem mælst hefur og á landsbyggðinni var meðalstölutíminn um 60,1 dagur, sem er met samkvæmt HMS.
Í mánaðarskýrslu HMS segir: „Oft er kauptilboð samþykkt á mun skemmri tíma en með fyrirvara um fjármögnun. Fjármögnun getur tekið tíma, sérstaklega ef kaupandi þarf að selja íbúð sem hann á fyrir til þess að fjármagna kaupin. Þannig geta jafnvel myndast sölukeðjur þar sem hver og ein íbúð þarf að seljast til þess að keðjan gangi upp. Því má segja að sölutíminn á höfuðborgarsvæðinu verði vart skemmri en hann mælist um þessar mundir.“