Fjármálaráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016 til 2019. Þetta er í fyrsta sinn sem ríkisfjármálaáætlun er sett fram á vorþingi til umfjöllunar, en tillöguna í heild má sjá hér.
Í áætluninni er gert ráð fyrir því að ríkissjóður skili að minnsta kosti tíu milljarða króna afgangi á næsta ári og afgangurinn verði orðinn nálægt 40 milljörðum króna árið 2019, og þannig orðinn nær 1,5% af vergri landsframleiðslu.
Í ályktuninni kemur fram að mikilvægasta viðfangsefnið í stjórn ríkisfjármála sé að vinda ofan af skuldum sem ríkið axlaði í kjölfar hrunsins. Samkvæmt áætluninni á hlutfall heildarskulda ríkissjóðs af landsframleiðslu að fara lækkandi fram til ársins 2019, eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Gert er ráð fyrir að hlutfallið sé 68 prósent í lok þessa árs en verði komið niður fyrir 50 prósent í lok ársins 2019.
Nafnvirði skuldanna lækkar þó um innan við tíu prósent á þessum tíma. Í árslok 2016 verða skuldir ríkissjóðs rúmlega 1.340 milljarðar en árið 2019 1.323,8 milljarðar.
Þá er vert að minnast á að skuldbindingar ríkisins vegna lífeyrissjóðakerfisins eru ekki inni í ríkisreikningi, en í stefnu fjármálaráðherra kemur fram að skapa þurfi svigrúm til að takast á við þessar skuldbindingar. Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í mánuðinum hyggst ríkið greiða inn á uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna á næsta ári, því annars fellur gjaldfærsla upp á 20 milljarða á ári á ríkið eftir 10 ár. Áætlað er að halli á þessum skuldbindingum nemi 700 milljörðum.
Áætlun stjórnvalda:
2016 | 2017 | 2018 | 2019 | |
Heildartekjur | 682,0 | 719,9 | 735,7 | 771,3 |
Heildargjöld | 671,0 | 679,1 | 706,8 | 733,4 |
Heildarjöfnuður ríkissjóðs | 11,0 | 40,8 | 28,9 | 37,9 |
Frumjöfnuður ríkissjóðs | 71,5 | 100,3 | 87,3 | 93,4 |
Fjármagnsjöfnuður | -60,5 | -59,4 | -58,4 | -55,4 |
Heildarskuldir ríkissjóðs | 1.340,3 | 1.326,9 | 1.367,3 | 1.323,8 |
Uppsöfnuð vaxtagjöld ríkissjóðs frá bankahruninu eru 580 milljarðar króna á föstu verðlagi ársins 2015. Ríkið gerir ráð fyrir því að selja eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum, endurfjármagna ekki hluta af skuldsettum gjaldeyrisforða landsins en endurfjármagna önnur lán með betri kjörum.
Í áætlun fjármálaráðherra kemur einnig fram að þrátt fyrir að jákvæð teikn séu á lofti séu líka ýmsir óvissuþættir fyrir hendi. Einna helst sé óvissan fólgin í útkomu kjarasamninga og afnámi fjármagnshafta. Þó séu einnig hefðbundnir þættir eins og aflabrestur eða dræm eftirspurn í viðskiptalöndum. „Afnám hafta gæti einnig haft jákvæð áhrif á skuldastöðu og vaxtakostnað en eðli málsins samkvæmt eru slíkir óvissuþættir ekki teknir inn í grunnviðmið ríkisfjármálaáætlunarinnar.“
Í spá Hagstofu Íslands, sem er vinnuspá fyrir þessa áætlun, er gert ráð fyrir allt að þriggja prósenta áframhaldandi hagvexti og verðbólgu við 2,5 prósent viðmiðunarmörk.