Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík voru samþykkt á hluthafafundi sem fram fór á fimmtudag. Tillaga um kaupin var samþykkt samhljóða með 98,51 prósent greiddra atkvæða en á fundinn voru mættir handhafar 89,54 prósent hluta í Síldarvinnslunni.
Tilkynnt var um kaup Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé í Vísi 10. júlí síðastliðinn. Útgerðarrisinn frá Neskaupstað sagðist vera að borga 31 milljarð króna fyrir Vísi. Sú tala skiptist þannig að skuldir upp á ellefu milljarða króna yrðu yfirteknar, sex milljarðar króna yrðu greiddir í reiðufé og 14 milljarðar króna með nýjum hlutabréfum í Síldarvinnslunni, þar sem miðað yrði meðaltalsgengi síðustu fjögurra vikna á undan viðskiptunum. Útgáfa þeirra nýju hlutabréfa var líka samþykkt á hluthafafundinum í gær.
Frá þeim tíma hefur gengi bréfa í Síldarvinnslunni hækkað um 26 prósent og virði þeirra hlutabréfa sem systkinahópurinn sem á nú Vísi fær sem afgjald fyrir fyrirtækið hefur þegar aukist um 3,7 milljarða króna, upp í 17,7 milljarð króna.
Stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji hf. með 32,64 prósent hlut og Kjálkanes með 17,44 prósent hlut. Stjórnarformaður félagsins er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Helst verið að kaupa kvóta
Helstu bókfærðu eignir Vísis eru annars vegar aflaheimildir sem metnar voru á 90,9 milljónir evra, alls um 13,4 milljarða króna á árslokagengi síðasta árs. Aflaheimildir eru nær undantekningarlaust vanmetnar í reikningum sjávarútvegsfyrirtækja, en fyrir viðskiptin var heildarupplausnarvirði úthlutaðs kvóta á Íslandi áætlað um 1.200 milljarðar króna, miðað við kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Bergi Huginn í fyrra.
Helstu verðmæti Vísis eru því úthlutaðar aflaheimildir sem bókfærðar eru á um 12,6 milljarða króna miðað við gengi evru í dag. Aðrar eignir, eins og eignarhlutir í hlutdeildarfélögum, eru mun minna virði.
Vísir heldur á 2,16 prósent af úthlutuðum kvóta hérlendis, að langmestu leyti í bolfiskifiski eins og þorski og ýsu. Ef miðað er við kaupverðið á Bergi Huginn ætti virði aflaheimildanna að vera rúmlega tvisvar sinnum meira, eða 25,8 milljarðar króna. Þá er þó horft framhjá því að fisktegundir eru mismunandi verðmætar. Verðmætustu aflaheimildirnar í þorski, þar sem Vísir er með gríðarlega sterka stöðu.
Ef horft er til nýlegra viðskipta með aflaheimildir þorsks þá hefur kaupverð á þeim verið í kringum fjögur þúsund krónur á kíló. Miðað við þá tölu ætti bara úthlutaður kvóti Vísis í þorski – 5,4 prósent alls slíks kvóta, eða í kringum tíu þúsund tonn – einn og sér að vera í kringum 40 milljarða króna virði. Þá á eftir að reikna með úthlutuðum aflaheimildum í öðrum tegundum.
Skuldsett fyrirtæki með þunga gjalddaga framundan
Miðað við þetta má ætla að Vísir hafi fyrst og síðast verið að selja Síldarvinnslunni kvóta. Og það á frekar lágu verði, þrátt fyrir að á fjórða tug milljarða króna sé gríðarlegir peningar í hugum flestra.
Ástæða þessa gæti verið falin í því að Vísir er afar skuldsett fyrirtæki. Fjármagnskostnaður þess á árinu 2020 var um 500 milljónir króna og í fyrra var hann litlu lægri, eða um 430 milljónir króna.
Samkvæmt ársreikningi Vísis fyrir árið 2020 áttu 46,3 milljónir evra, um 6,4 milljarðar króna á gengi dagsins í dag, af langtímaskuldum fyrirtækisins við lánastofnanir að vera á gjalddaga á árinu 2022. Í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins hefur sá þungi gjalddagi færst til ársins 2023 og er nú 50,1 milljónir evra, eða 6,9 milljarðar króna. Langtímaskuldir Vísis jukust um 2,2 milljónir evra, um 300 milljónir króna, á síðasta ári og voru ellefu milljarðar króna um síðustu áramót. Þær skuldir tekur Síldarvinnslan yfir samþykkti Samkeppniseftirlitið samruna félaganna.
Kaupin eru afar umdeild og hafa víða vakið hörð viðbrögð. Verði þau samþykkt Samkeppniseftirlitinu munu núverandi aflaheimildir Síldarvinnslunnar fara yfir það tólf prósent hámark sem hver útgerð má samkvæmt lögum halda á af úthlutuðum kvóta.
Hagnaðist um 6,5 milljarða á fyrri hluta árs
Síldarvinnslan birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í gær. Þar kom fram að hagnaður félagsins hafi verið 6,5 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins, ef miðað er við gengi Bandaríkjadals í dag, en útgerðin gerir upp í þeim gjaldmiðli.
Eigið fé Síldarvinnslunnar var 61,7 milljarðar króna um mitt þetta ár. Verðmætasta bókfærðu eignir félagsins eru aflaheimildir sem eru sagðar 37,7 milljarða króna virði.
Kaupin á Vísi eru önnur tveggja risaviðskipta sem Síldarvinnslan hefur ráðist í á skömmum tíma. Í júní var tilkynnt um kaup á 34,2 prósent hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um 13,7 milljarða króna. Það félag á allt hlutafé í Arctic Fish ehf. sem er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum á Íslandi og rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum þar sem félagið er með rúmlega 27 þúsund tonna leyfi fyrir eldi í sjó. Fyrirtækið er auk þess í mikilli uppbyggingu á Bolungarvík þar sem verið er að byggja laxaslátrun. Fyrir hlutinn var greitt með reiðufé og lánsfé.