Fjárfestingafélagið FEA ehf., í eigu hóps fjárfesta undir forystu Skúla Skúlasonar, er áfram stærsti eigandi flugfélagsins Play eftir að félagið safnaði um sex milljörðum króna nýverið í lokuðu hlutafjárútboði. FEA-hópurinn eignaðist allt hlutafé í Play, sem hefur enn ekki flogið eina einustu ferð, í byrjun maí í fyrra þegar félagið gat ekki endurgreitt brúarlán sem FEA veitti því veturinn á undan.
Á meðal nýrra stórra eigenda sem koma inn í eigendahópinn eftir hlutafjáraukninguna eru lífeyrissjóðurinn Birta, sem er næst stærsti eigandinn með 12,55 prósent hlut sem hann greiddi um milljarð króna fyrir. Fjárfestingafélag Einars Arnar Ólafssonar, Fiskisund, er þriðji stærsti eigandinn með 11,86 prósent hlut sem hann greiddi litlu minna en Birta fyrir. Einar Örn er einnig nýr stjórnarformaður Play. Fjárfestingafélagið Stoðir, sem er á meðal umsvifamestu einkafjárfesta á Íslandi og á stóra eignarhluti í meðal annars Arion banka, Kviku og Símanum, er skráð fyrir 8,37 prósent hlut sem kostaði um 600 milljónir króna. Einar Örn er á meðal stórra hluthafa í Stoðum.
Flestir aðrir fjárfestar á listanum yfir 16 stærstu hluthafa eru fagfjárfestasjóðir. Undantekningin þar er félagið Attis ehf., sem á 1,67 prósent hlut. Forsvarsmaður þess er skráður Guðmundur Örn Þórðarson.
Á næstu vikum og mánuðum er fyrirhugað að bjóða almenningi að fjárfesta í Play samhliða skráningu á verðbréfamarkað First North.
Stefnt er á að félagi hefji sig til flugs í júní næstkomandi.
Sú vending varð nýverið að Birgir Jónsson var ráðinn forstjóri Play. Hún tengdist hlutafjárútboðinu. Í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook í síðustu viku sagði Birgir: „Ég hef aldrei verið eins spenntur fyrir neinu á ævinni eins og tækifærinu sem Play hefur til að ná árangri.
Það er einhver sérstök orka sem umlykur fólkið sem vinnur nú hjá fyrirtækinu og fólkinu sem hefur fjárfest í því. Ótrúlegur metnaður og hungur í árangur. Rosalegur kraftur.
Þetta verður erfitt, flókið og hratt. En djöfull sem þetta verður gaman!!
Það er gríðarlegur heiður fyrir mig að fá að leiða þennan hóp og einhvernveginn finnst mér að allt sem ég hef gert hingað til hafi verið uppbygging að þessu verkefni.“
Kjarninn tók ítarlegt viðtal við Skúla Skúlason og Arnar Már Magnússon, þáverandi forstjóra félagsins, í september í fyrra. Það má lesa hér til hliðar.