Íslenska ríkið hóf að selja hluti í Íslandsbanka í fyrra, þegar 35 prósent hlutur var seldur, og bankinn var skráður á markað í júní 2021. Þá voru hluthafar í bankanum sagðir 24 þúsund talsins.
Í almennu útboði sem fór fram í aðdraganda skráningar var þátttaka almennings mikil enda þótti útboðsgengið, 79 krónur á hlut, vera afar lágt miðað við efnahagsreikning bankans og stöðu mála á hlutabréfamarkaði á þeim tíma. Á fyrsta degi viðskipta hækkaði verðið um 20 prósent.
Það skipti miklu máli í útboðinu að þeir sem skráðu sig fyrir kaupum upp á eina milljón króna eða minna voru ekki skertir, þrátt fyrir að eftirspurn eftir bréfum hafi verið níföld.
Salan á Íslandsbanka var valin viðskipti ársins af Innherja, undirvef Vísis sem fjallar um efnahagsmál og viðskipti. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, tóku við verðlaunum frá Innherja og samstarfsaðila miðilsins, velgjörðafélagsins 1881, á galakvöldi í desember síðastliðnum.
Strax í árslok 2021 hafði hluthöfum í Íslandsbanka fækkað umtalsvert, og voru þá 15.700. Því má ljóst vera að margir hafi selt hluti sína á því tæpa hálfa ári sem leið frá útboði og þar til að síðustu áramót gengu í garð. Hlutabréfaverð í Íslandsbanka hækkaði enda um 60 prósent á tímabilinu. Sá sem keypti fyrir eina milljón krónur gat því leyst út hagnað upp á 600 þúsund krónur á nokkrum mánuðum.
Sumir fagfjárfestar stoppuðu líka stutt við
Næsta skref í sölu á bankanum var tekið 22. mars síðastliðinn, þegar 22,5 prósent hlutur var seldur á 117 krónur á hlut, sem var undir þáverandi markaðsvirði. Þátttakendurnir fengu því bréfin á lægra verði en ef þau hefðu verið keypt á eftirmarkaði. Afslátturinn var um fjögur prósent. Útboðið var lokað tilboðsfyrirkomulag og var það í fyrsta sinn sem slíku útboði var beitt við sölu ríkiseigna í Íslandssögunni. Alls 207 fjárfestar fengu að kaupa og hluti þeirra þeirra seldi sig fljótt aftur út með hagnaði. Afslátturinn var rökstuddur með því að það væri alvanalegt alþjóðlega þegar stór hlutur í skráðu félagi væri seldur með tilboðsfyrirkomulagi að gefa afslátt.
Hópurinn sem fékk að kaupa innihélt meðal annars starfsmenn og eigendur söluráðgjafa, litla fjárfesta sem rökstuddur grunur er um að uppfylli ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlenda skammtímasjóði sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir hafi engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, aðila sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og föður fjármála- og efnahagsráðherra.
Vegna þessa var Ríkisendurskoðun falið að gera stjórnsýsluúttekt á söluferlinu og fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft það til rannsóknar. Hvorugur aðilinn hefur birt neina niðurstöðu enn sem komið er en skýrsla ríkisendurskoðunar er tilbúin í drögum og þeir sem hún snýr að hafa skilað inn umsögnum um drögin. Búist er við henni einhvern tímann í nóvember.
Hluthafar orðnir 13.559 talsins
Á meðan að á öllu þessu stóð hefur hluthöfum í Íslandsbanka haldið áfram að fækka.
Samkvæmt uppgjöri Íslandsbanka fyrir fyrstu níu mánuði ársins voru hluthafar í Íslandsbanka 13.559 í lok september. Þeim hefur því fækkað um rúmlega tíu þúsund frá því í fyrrasumar. Stærstu hluthafarnir eru íslenskir lífeyrissjóðir. Íslandsbanki er þó enn sá banki á markaði sem er með flesta hluthafa. Hjá Arion banka eru þeir 12.350, en þeim er hins vegar að fjölga hratt. Frá byrjun síðasta árs hefur þeim fjölgað um 4.950, eða um 67 prósent.
Alls hefur hlutabréfaverð í Íslandsbanka hækkað um 6,8 prósent það sem af er ári og er nú 63 prósent hærra en það var í almenna útboðinu í fyrrasumar og tíu prósent hærra en það var í lokaða útboðinu í mars.
Það er gert þrátt fyrir yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna og að salan hafi verið sett á ís í vor á meðan að Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsökuðu hluta síðasta skrefs sem stigið var í söluferlinu.
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að forsætisráðuneytið segði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni, stendur því enn.
Miklar útgreiðslur til hluthafa
Íslandsbanki hagnaðist um 18,5 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Arðsemi eigin fjár hefur hækkað skarpt milli ára, en hún var 14,2 prósent frá byrjun þessa árs og til loka septembermánaðar á meðan að hún var 7,6 prósent á sama tímabili í fyrra. Kostnaðarhlutfall bankans, sem mælir hvað kostnaður er stór hluti af tekjum, hefur líka verið að lækka skarpt og er nú 41,9 prósent.
Íslandsbanki greiddi hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð vegna síðasta árs. Auk þess kom fram fyrr á þessu ári að stjórn bankans stefni að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé fyrir lok næsta árs. Þegar hefur verið samþykkt endurkaupa áætlun fyrir 15 milljarða króna í ár.