Í gær voru tveir mánuðir liðnir frá því að hlutafjárútboði Íslandsbanka lauk, en bankinn var skráður á markað viku síðar, eða 22. júní 2021. Í útboðinu var 35 prósent hlutur í bankanum seldur á 79 krónur á hlut. Heildarsöluandvirðið er 55,3 milljarðar króna og rennur það að uppistöðu, eftir að búið er að draga frá kostnað vegna útboðsins, í ríkissjóð þar sem íslenska ríkið var eini eigandi bankans fyrir útboðið. Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka miðað við þetta var 158 milljarðar króna.
Níföld eftirspurn var eftir bréfunum, enda var það almennt mat greiningaraðila að þau væru undirverðlögð og gætu hækkað hratt þegar almenn viðskipti með þau myndu hefjast. Það reyndist rétt og nú tveimur mánuðum eftir að hlutafjárútboðinu lauk hafa bréfin hækkað um 56 prósent.
20 keyptu rúmlega helming
Þegar fyrsti hluthafalisti Íslandsbanka eftir skráningu var birtur kom í ljóst að þeir 20 fjárfestar – erlendir sjóðir, lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar – sem keyptu mest í útboðinu áttu samtals 18 prósent hlut í bankanum. Það þýðir að hinir þátttakendurnir í útboðinu, en þeir alls voru um 24 þúsund talsins, keyptu samanlagt 17 prósent hlut.
Þúsundir hafa þegar selt bréf
Bréfin hækkuðu strax á fyrsta degi viðskipta um 20 prósent. Síðan þá hafa þau haldið áfram að hækka og ljóst að margir smærri fjárfestar hafa selt hluti sína til að leysa út skjótfenginn gróða. Tæpum mánuði eftir að útboðinu lauk hafði hluthöfum í Íslandsbanka fækkað um fjögur þúsund. Þá höfðu bréfin hækkað um 35 prósent sem þýddi að þeir sem keyptu fyrir eina milljón króna gátu selt bréfin sín með 350 þúsund króna hagnaði.
Síðan þá hafa bréfin haldið áfram að hækka og nemur hækkunin nú, líkt og áður sagði, um 56 prósentum.
Miðað við það er markaðsvirði Íslandsbanka í dag um 246,5 milljarðar króna, og hefur hækkað um 88,5 milljarða króna á tveimur mánuðum. Af þeirri virðisaukningu hefur um 31 milljarður króna lent hjá þeim sem keyptu 35 prósent hlut af íslenska ríkinu á 79 krónur á hlut um miðjan júnímánuð.
Vill selja restina á næsta kjörtímabili
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur oftsinnis lýst því yfir á kjörtímabilinu að hann vilji selja allt hlutafé í Íslandsbanka og allt að helming í hinum ríkisbankanum, Landsbankanum.
Í síðustu viku mærði hann, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Suðurnesjum, sölu ríkiseigna á kjörtímabilinu, en þar átti hann sýnilega við sölu á 35 prósent hlut í Íslandsbanka í sumar.
Bjarni sagði að í sínum huga væri augljóslega hægt að treysta ríkisfjármálin á komandi kjörtímabili með því að halda áfram á þeirri braut, og selja meira í bankanum.