Hafsteinn Þór Hauksson dósent við lagadeild Háskóla Íslands segir að hlutverk Alþingis sé að taka afstöðu til deilumála sem koma upp í kjölfar kosninga og deilna um einstök atkvæði – og að skoða atkvæði. „Ég sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að þingið gæti þá rannsakað kjörgögn og gert þá leiðréttingar ef nauðsynlegar eru. Og til þess eru auðvitað kjörgögn varðveitt, til þess að hægt sé að skoða þau og taka þá réttar ákvarðanir í kjölfarið.“
Þetta kom fram á opnum fundi undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa en þetta var fjórði fundur nefndarinnar.
Hafsteinn hóf mál sitt á því að tala um vangaveltur um ógildingu á kosningum. „Hvenær eru ágallar á framkvæmd kosninga til þess fallnir að leiða til ógildingar á kosningum, að það þurfi að kjósa upp á nýtt eða eitthvað slíkt? Þá þekkjum við auðvitað öll þetta ákvæði í 3. málsgrein 120. grein laga um kosningar til Alþingis sem ég tel reyndar að sé ekki eini mælikvarðinn. Við höfum séð það áður í úrlausnum Hæstaréttar að það kunni að vera aðrar meginreglur sem gætu leitt til ógildingar og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um skilyrði um að kosningarnar séu leynilegar, þ.e.a.s. ef brotið er gegn því skilyrði að við göngum út frá því að við höldum lýðræðislegar, frjálsar og leynilegar kosningar.“
Hann segir að það verði alltaf að hafa augun á því að kosningar þurfi að vera frjálsar, leynilegar og lýðræðislegar og til þess fallnar að leiða vilja almennings í ljós. Í fyrrnefndri 3. málsgrein 120. greinar segir að gallarnir þurfi að hafa verið þannig að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. „Það má ætla það að í frjálsum kosningum í lýðræðisríkjum að álitaefni komi upp og að gerð séu mistök. Þau leiða ekki öll til þess að kosningarnar séu ónýtar og það þurfi þá að kjósa aftur. Fjarri því. Og þarna er þá sleginn þessi varnagli á þau úrræði að þau þurfi þá að vera til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu kosningarinnar. Og í svona fræðilegri umræðu um þennan mælikvarða þá hafa verið ólíkar nálganir á það hvernig eigi að túlka þetta.“
Hann bendir á að í fyrsta lagi sé talað um almennan mælikvarða. Þá væri hægt að spyrja hvort ágallinn á kosningunni almennt væri til þess fallinn að hafa áhrif á kosningar enda þótt ekkert hefði verið sýnt fram á að það hefði gerst í þessu tiltekna tilfelli. „Er um sérstakan mælikvarða að ræða sem segir þá að það þurfi að sýna fram á nákvæmlega að það hafi haft tiltekin áhrif? Eða er eitthvað millistig um að ræða, sem er held ég kallað sérstakur mælikvarði með öfugri sönnunarbyrði? Sem er þá það að ef þetta er galli, sem almennt er til þess fallinn að geta haft áhrif, að þá myndi það leiða til ógildingar nema sýnt sé fram á að hann hafi ekki gert það í þessu tilfelli. Þetta eru ólíkar nálganir á þessa ákvæði.“
Það eitt að innsiglun hafi ekki verið fullnægjandi leiðir ekki sjálfkrafa til ógildingar kosninga
Hafsteinn segir að setja þurfi málsatvik sem undirbúningsnefndin fjallar nú um og sem þingið þarf að taka afstöðu til undir þessa mælikvarða og rannsaka vel.
Fjallaði hann um það álitaefni að skortur á innsiglun kjörgagna myndi þá teljast ágalli sem myndi leiða til ógildingar, þ.e. hvort það teldist ágalli á kosningunum sem ætla mætti að hefði haft áhrif á úrslit kosninganna. „Ég held að það sé ekki til eitt einfalt hreint og klárt svar við þessari spurningu sem gildi í öllum tilfellum. Ég held að það þurfi að kalla málsatvik sérstaklega, það er að segja ég held að það eitt að innsiglun hafi ekki verið fullnægjandi leiði ekki sjálfkrafa til þess að það þyrfti að ógilda kosningarnar, að sýnt hefði verið fram á að það hefði haft áhrif á niðurstöðu kosningarinnar. Það þyrfti eitthvað fleira að koma til og þá sérstaklega ef sýnt þykir að hægt er að leiða í ljós líkur að því að ekki hafi verið átt við kjörgögnin þrátt fyrir það að þau hafi ekki verið innsigluð.“
Hann sagðist ekki hafa vitneskju um það hvaða sönnunargögn lægju fyrir um þetta eða hvort nefndin hefði haft aðgang að þeim. „En ef sýnt yrði til dæmis fram á það með einhverjum hætti að það að gögnin eru í læstu herbergi sem er ekki innsiglað en það sé eitthvað eftirlit, myndbandsupptökur og svo framvegis sem gefur skýrlega til kynna að það hafi ekki verið átt við gögnin eða neinn möguleiki á því að þá held ég að það myndi skipta miklu máli. Einnig væri mögulegt í þessu sambandi að líta til þess – vegna þess að við vitum að sú staða er hér uppi að það breytist niðurstaðan á talningu, fyrir og eftir þetta tímabil þar sem gögnin eru óinnsigluð, að kanna þá hvaða breytingar það eru, hvers eðlis þær eru.“
Gætu þurft að skoða sérstaklega tiltekin atkvæði
Hafsteinn var spurður fyrirfram af nefndinni að ef fyrir lægi að öryggi kjörgagna hefði verið tryggt á meðan frestun fundar yfirkjörstjórnar stóð yfir hvort það væri ágalli á framkvæmd kosninganna sem til þess væri fallinn að hafa áhrif á þær ef ekki öllum umboðsmönnum framboðslista í kjördæminu hefði verið gefinn kostur á að vera viðstaddir endurtalninguna.
„Mínar hugleiðingar um þetta eru á svipuðum nótum eins og varðandi fyrra atriðið. Ég held að þetta sé mjög atviksbundið. Ég vek athygli á því að þetta er auðvitað atriði sem – fyrsta að ég var farinn að tala um ákvörðun Hæstaréttar í stjórnlagaþingskosningunni að þá var þetta talinn verulegur ágalli, það er hvernig staðið var að talningunni. Að umboðsmenn hefði ekki verið á svæðinu, þetta hefði ekki verið gert fyrir opnum dyrum og svo framvegis. Hins vegar getum við séð fyrir okkur ýmsar aðrar aðstæður af svipuðum toga en kannski ekki af sama alvarleika. Hugsum okkur hverjar ástæðurnar séu fyrir að viðkomandi sé ekki boðaður, kom hann ekki upphaflega til talningar og var hann síðan ekki boðaður sérstaklega til þessarar svokölluðu endurtalningar og eru aðrir umboðsmenn á svæðinu? Ef við gefum okkur það að kjörgögnunum hafi ekki verið spillt væri þá ekki hægt að leysa úr þessum álitaefnum einfaldlega með því að endurtelja og þá taka sérstaklega til skoðunar einhver vafaatkvæði sem umboðsmaðurinn hefði getað haft einhverja skoðun á? Er þetta þá ekki ágalli sem hægt er að bæta úr? Þannig að aftur svolítið á svipuðum nótum og áðan þá myndi ég segja að þetta væri svolítið atviksbundið hversu alvarlegt frávikið er, hvernig aðstæðurnar eru og hvernig er hægt að bæta úr þeim og svo framvegis. En þetta gæti þá leitt til þess að þið þurfið þá að skoða sérstaklega einhver tiltekin atkvæði,“ sagði hann við nefndina.
„Hugsum okkur bara að kjörbréf væri gefið út á alnafna einhvers ykkar“
Varðandi vangaveltu um það hvaða heimildir nefndin og þingið hefði þá sagði Hafsteinn að þingið hefði það hlutverk samkvæmt stjórnarskránni að meta hvort kjörbréfin væru gild eða ógild.
„En þá er það spurningin hvort það leiði sjálfkrafa til uppkosningar. Eru ykkar möguleikar annað hvort að staðfesta niðurstöðuna sem þið fáið senda frá kjörstjórn eða ógilda og fara í uppkosningu? Það er ekki að ástæðulausu sem þessi álitaefni koma upp vegna þess að það eru auðvitað engin ákvæði í rauninni sem mæla fyrir um þetta í lögunum og auðvitað umhugsunarefni – og einhverjir gætu talið það til marks um það að úrræðin séu þá tæmandi talin.
En ég tel sjálfur að það gangi eiginlega ekki upp. Ég nefni nú bara – og ég vona að þið fyrirgefið mér fyrir að taka svona einfalt dæmi – en hugsum okkur bara að kjörbréf væri gefið út á alnafna einhvers ykkar. Og viðkomandi væri hér mættur hnarreistur í þingið. Að halda því fram að þingið hefði bara tvo möguleika, annað hvort að samþykkja þingsetu viðkomandi sem enginn kaus eða fara í nýjar kosningar held ég bara að gangi ekki upp. Það hlýtur eðli málsins samkvæmt ef það er verkefni okkar hér að framkvæma kosningalögin og framkvæma frjálsar lýðræðislegar og leynilegar kosningar þá þyrfti að bregðast við og laga þessi mistök – leiðrétta þessi mistök. Hvernig yrði það gert?“ spurði Hafsteinn.
„Ja, það yrði ekki gert að mínum dómi öðruvísi en að ógilda það kjörbréf og gefa út nýtt á réttan aðila. Og það að það séu ekki til ákvæði sem segja okkur nákvæmlega hvernig það er gert er auðvitað bagalegt en það er veruleiki sem yrði að takast á við held ég. Og það er ekki bara einhver praktísk nauðsyn heldur er það vegna þess að við erum að reyna að taka alvarlega – og ég segi við bara sem samfélag – niðurstöður lýðræðislegra kosninga þar sem að fyrirliggja atkvæði almennings.“