Fyrir hönd ríkisins mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) á næstu vikum vinna með sveitarfélögum við að meta núverandi húsnæðisáætlanir, greina tækifæri til frekari uppbyggingar og gera samninga um slíkar áætlanir. Þetta er á meðal þess sem fram kom á upphafsfundi um framkvæmd rammasamnings um aukið framboð íbúða, sem fram fór í dag og markar upphaf átaks stjórnvalda og sveitarfélaga í þeim efnum.
Rammasamningur sem undirritaður var í júlí kveður á um að íbúðum verði fjölgað um 20.000 á næstu fimm árum og 35.000 á tíu árum og að þar af verði 30 prósent nýrra íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5 prósent íbúa félagsleg húsnæðisúrræði.
Samningarnir sem HMS mun gera við sveitarfélög munu kveða á um fjölda íbúða, íbúðagerð og staðsetningu til að skapa fyrirsjáanleika til næstu ára, en samkvæmt húsnæðisáætlunum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir um 16.000 nýjum íbúðum á fimm árum. Þennan fjölda á að auka um 4.000 íbúðir.
Í sameiginlegri fréttatilkynningu frá HMS, innviðaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra að nú verði allir að róa í sömu átt og leggja allt kapp á að tryggja aukið framboð íbúða.
„Jafnvægi á húsnæðismarkaði er nauðsynlegt til þess að skapa húsnæðisöryggi, hagstætt vaxtaumhverfi til lengri tíma og verja efnahag heimilanna. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var í sumar var mikilvægur áfangi að ná sameiginlegri sýn um það hvernig megi ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og fyrirsjáanleika fyrir stjórnvöld og byggingaraðila um uppbyggingu. Nú er unnið markvisst að því að útfæra samninginn með sveitarfélögum, m.a. til að tryggja nægjanlega fjölda byggingarhæfra lóða, eyða flöskuhálsum í skipulagsferlum og meta hvaða fjármuni ríkið leggur til í húsnæðisstuðning og stofnframlög. Við bíðum nú eftir kostnaðarmati HMS og sveitarfélaga til að geta metið endanlegar tillögur að fjármögnun til verkefnisins úr ríkissjóði. Þetta er viss áskorun á tímum þegar gæta þarf sjónarmiða um aðhald á fjárlögum. Þó er ljóst að hússnæðisskortur hækkar fasteignaverð og vísitölu, sem aftur getur hækkað verðbólgu og hefur þannig bein áhrif á ráðstöfunartekjur fólksins í landinu,“ er haft eftir Sigurði Inga.
HMS og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna saman að kostnaðarmati og tillögum um það hver húsnæðisstuðningur við sveitarfélög þarf að vera til að byggja upp hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði í samræmi við markmið rammasamningsins.
Einnig er starfshópur um húsnæðisstuðning að störfum með það hlutverk að endurskoða beinan húsnæðisstuðning til einstaklinga. „Á grundvelli þeirrar vinnu og á grundvelli tillagna starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, frá maí 2022, er gert ráð fyrir breytingum og auknum húsnæðisstuðningi ríkisins frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 2023. Þar sem starfshóparnir eru enn að störfum er horft til annarrar umræðu fjárlaga í því samhengi,“ segir í fréttatilkynningunni.
Athygli hefur vakið að í fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær voru engar nýjar aðgerðir til að auka framboð á íbúðamarkaði kynntar til leiks. Þvert á móti eru stofnframlög til uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu lækkuð um tvo milljarða króna frá fyrra ári, samkvæmt frumvarpi ráðherra.
Í tilkynningu kemur fram að þegar HMS og sveitarfélög hafi náð samningum um aukna uppbyggingu á hverjum stað muni HMS í upphafi næsta árs „leggja fram og birta heildstæða húsnæðisáætlun fyrir allt landið“.
„Í húsnæðisáætluninni, sem verður stafræn, verður nákvæm áætlun um uppbyggingu í hverju sveitarfélagi fyrir sig og því verður hægt fylgjast með framvindu uppbyggingar nýrra íbúða á vef HMS,“ segir í fréttatilkynningu.
Sömuleiðis vinnur innviðaráðuneytið nú að gerð húsnæðisstefnu með aðgerðaáætlun, sem verður sú fyrsta sem gerð hefur verið í málaflokknum. Grænbók verður kynnt í haust og þingsályktunartillaga um húsnæðisstefnu kynnt í upphafi árs 2023.