Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er ekki hægt að fullyrða að núverandi staða á húsnæðismarkaði hafi komið til vegna skorts á framboði af nýjum íbúðum. Fyrst og fremst megi rekja hana til aukinnar eftirspurnar, en vísbendingar séu einnig um að lóðaskortur gæti staðið í vegi fyrir áframhaldandi uppbyggingu.
Þetta kemur fram í kynningu stofnunarinnar fyrir Þjóðhagsráð um stöðuna á húsnæðismarkaði frá því fyrr í mánuðinum. Samkvæmt henni hefur framboð íbúða verið umfram spár á síðustu árum og óuppfyllt íbúðaþörf hefur minnkað. Sérstaklega hafi verið mikið byggt af íbúðum á síðustu tveimur árum og því vill HMS ekki fullyrða að verðhækkanir séu vegna framboðsskorts.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, sem á sæti í Þjóðhagsráði ásamt fulltrúum stéttarfélaga og Samtökum atvinnulífsins, hélt því hins vegar fram á vaxtaákvörðunarfundi í gær að mikil hækkun fasteignaverðs sé að einhverju leyti undirbyggð á skorti á framboði.
Seðlabankastjóri nefndi þó einnig að að nýleg hækkun húsnæðisverðs væri að hluta til drifin áfram af vaxtalækkunum sem bankinn þurfti að ráðast í til að bregðast við efnahagsáfallinu sem fylgdi heimsfaraldrinum í fyrra. Að mati HMS eru þessar vaxtalækkanir og eftirspurnaraukningin sem þeim fylgdi meginorsök núverandi stöðu á húsnæðismarkaði, en samkvæmt stofnuninni var erfitt að sjá þær fyrir og bregðast við eftirspurninni í tæka tíð.
HMS minntist líka á lóðaskort í skýrslunni sinni, en sagði að vísbendingar væru uppi um að skorturinn gæti staðið í vegi fyrir áframhaldandi og stöðugri uppbyggingu. Sömuleiðis sagði Ásgeir að sú ákvörðun að Reykjavík eða önnur sveitarfélög hafi ekki reist nýjar íbúðabyggðir á nýju landi á síðari árum hafa mikil áhrif á húsnæðisverðið.