Íbúum Suðurlands og Suðurnesja hefur fjölgað um alls 2.300 manns á síðustu fimm árum vegna aðflutnings fólks úr öðrum landshlutum. Á sama tíma hafa rúmlega þúsund fleiri íbúar flutt frá höfuðborginni og á landsbyggðina heldur en frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Þetta kemur fram í fólksflutningstölum Hagstofu, sem birtar voru í síðustu viku.
Fjölgar í öllum landshlutum
Samkvæmt tölunum hefur íbúum fjölgað í öllum landshlutum vegna aðflutnings á tímabilinu 2017-2021. Mest hefur nettó aðflutningurinn verið á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru aðfluttir rúmlega 16 þúsundum fleiri heldur en brottfluttir.
Sömuleiðis hefur aðfluttum fjölgað mikið á Suðurlandi og á Suðurnesjum, en í hvorum landshluta fyrir sig voru þeir fjórum þúsundum fleiri en brottfluttir. Í hinum landshlutunum var nettó aðflutningur fólks undir þúsund manns.
Nær allur þessur aðflutningur kemur erlendis frá, en á tímabilinu 2017-2021 fjölgaði aðfluttum um rúm 27 þúsundum umfram brottfluttra. 64 prósent þeirra settust að á höfuðborgarsvæðinu, en 12 prósent þeirra settust að á Suðurnesjum og önnur 10 prósent þeirra fluttu á Suðurlandið. Fæstir þeirra, eða um 1,3 prósent af heildarfjölda nettó aðfluttra, settust að á Norðurlandi Eystra.
Höfuðborgin ekki vinsæl hjá íbúum landsbyggðar
Ef litið er framhjá aðflutningi þeirra sem koma erlendis frá sést að höfuðborgarsvæðið hefur orðið minna ákjósanlegur staður til að búa á í augum íbúa annarra sveitarfélaga. Líkt og myndin hér að neðan sýnir fluttu rúmlega þúsund fleiri úr höfuðborginni á landsbyggðina heldur en öfugt.
Á sama tíma fluttu tæplega 1.500 fleiri íbúar á Suðurlandið heldur en frá því, en nettó aðflutningur íbúa hérlendis á Suðurnesin var tæplega helmingi minni. Í öllum hinum landshlutum var nettó aðflutningurinn neikvæður.
Myndin hér að neðan sýnir mismun þeirra sem fluttu frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og þeirra sem fluttu frá höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina. Líkt og sést hefur nettó aðflutningur innanlands lengst af verið jákvæður í höfuðborginni, þannig að hluti af fólksfjölgun hennar hefur verið vegna aðflutnings fólks sem bjó áður í öðrum landshlutum.
Fyrir tólf árum síðan byrjaði svo að hægja á þessari þróun, en árið 2017 var svo að minnsta kosti 30 ára met slegið í nettó brottflutningi, þegar 427 fleiri íbúar fóru frá borginni og til annarra landshluta heldur en öfugt. Þetta met var svo slegið aftur í fyrra, en þá nam nettó brottflutningur íbúa hérlendis úr borginni 640 manns.