Útgáfufyrirtæki Warner/Chappel, dótturfélag Warner Music Group, á ekki lengur höfundarréttinn að Afmælissöngnum, sem á ensku heitir „Happy Birthday to You“, samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms í Los Angeles borg í Bandaríkjunum í gær. Lagið er vinsælasta lagið sungið á ensku.
Í umfjöllun New York Times um málið segir að ef niðurstaða héraðsdómara fæst staðfest þá sé hún nokkuð högg fyrir Warner/Chappel. Fyrirtækið hefur átt útgáfurétt lagsins frá árinu 1988 og innheimtir árlega um tvær milljónir dollara fyrir afspilun lagsins í sjónvarpi og kvikmyndum, eins og um hvert annað lag í þeirra eigu sé um að ræða. Upphæðin jafngildir um 260 milljónum króna.
Dómsniðurstaða í málinu telur alls 43 blaðsíður og reifar dómari meðal annars flókna sögu lagsins og slóð höfundaréttarskráninga sem ná meira en öld aftur í tímann. Er það niðurstaða dómara að höfundaréttur lagsins sé útrunninn og eigi ekki rétt á sér.
Upphaf málsins má rekja til kæru Jennifer Nelson árið 2013. Nelson er sjálfstæð kvikmyndagerðarkona og ætlaði að gera heimildarmynd um Afmælissönginn. Það gat hún ekki vegna réttindamála. Í umfjöllun New York Times segir Nelson að niðurstaða dómara sé mikill sigur fyrir tónlistarfólk, listamenn og aðra sem hafa beðið í áratugi eftir þessari niðurstöðu. Hún sé ánægð með að lagið sé nú í eigu almennings, eins og það á að vera.