Haukur Freyr Gylfason framkvæmdi rauðvínstilraun í fimmta og næst síðasta þætti Ferðar til fjár, sem var á dagskrá á RÚV síðastliðinn fimmtudag. Hann fékk þátttakendur til þess að smakka á nokkrum mismunandi tegundum af rauðvíni, velja sitt uppáhalds vín og meta hvort öðrum þátttakendum þætti sama vín það besta.
„Smekkur fólks er mismunandi. En einhverra hluta vegna þá er algengt að við teljum aðra velja sama rauðvín og við, þegar við veljum okkar uppáhalds vín,“ sagði Haukur en hann er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og hefur sérhæft sig í rannsóknum tengdum fjármálahegðun.
Haukur Freyr Gylfason, aðjúnkt við HR.
Skekkjan sem víntilraunin sýnir fram á kallast samdómsskekkja. Það er tilhneiging fólks til að ofmeta hversu vel álit annarra samræmis eigin dómi. Þetta mat okkar má skýra með setningu á við: „Þetta er mín skoðung og það hljóta allir að vera sammála mér.“ Viðhorf sem þetta má gjarnan heyra í pólitík, þar sem stjórnmálamenn halda að allir, eða langflestir, séu sömu skoðunar og þeir sjálfir.
Samdómsskekkjan getur komið fram við fjárfestingar og er þess stundum valdandi að fólk er reiðubúið að greiða hærra verð fyrir hlutina en ella.
Skál í boðinu
En hvernig kemur skekkjan fram við vínsmökkun? Í síðasta þætti fengum við nokkra nemendur við Háskólann í Reykjavík til þess að smakka nokkur mismunandi rauðvín og velja það besta. Ef samdómsskekkjan á sér stoð í raunveruleikanum þá ættu flestir smakkaranna að telja að aðrir séu sammála þeim um hvaða rauðvín sé best.
Viti menn, skekkjan kom skýrt fram. Þrír af hverjum fjórum sögðu að aðrir myndu velja það sama og þeir völdu sem sitt uppáhalds vín.
Hér að neðan má sjá stuttan fyrirlestur Hauks þar sem hann fjallar nánar um samdómsskekkjuna:
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 19. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.