Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri í Sandgerði hlaut efsta sætið í forvali Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi, en atkvæðagreiðslunni lauk kl. 17 í dag. Hólmfríður hlaut 165 atkvæði í efsta sæti listans.
Í öðru sæti í forvalinu varð Heiða Guðný Ásgeirsdóttir með 188 atkvæða í 1.-2. sæti listans og í þriðja sæti varð Sigrún Birna Steinarsdóttir með 210 atkvæði í 1.-3. sæti.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem í dag er þingmaður flokksins í Reykjavík, hafnaði í fjórða sæti í forvalinu og fékk 176 atkvæði í 1.-4. sæti. Í fimmta sæti varð Helga Tryggvadóttir, en hún fékk 264 atkvæði í 1.-5. sæti.
Viðbúið að leiðrétta þurfi hlut karla
Einungis einn karl er því í efstu fimm sætunum í forvalinu. Samkvæmt Sæmundi Helgasyni, sem er formaður kjörstjórnar Vinstri grænna í kjördæminu, er viðbúið að einhverjar tilfæringar verði á röð efstu frambjóðenda áður en listinn komi fram, til þess að jafna hlut karla og kvenna, í samræmi við lög og stefnu VG.
Óljóst er þó nákvæmlega hvernig það verður gert, en Sæmundur segir við Kjarnann að fyrst verði að koma í ljós hvernig vinnst úr þessari niðurstöðu flokksmanna og hverjir hyggist þiggja sæti á lista.
Það verður í höndum kjörstjórnar að leggja fram endanlegan 20 manna lista til samþykktar á kjördæmisþingi.
Alls voru átta manns í framboði og fimm manns sóttust eftir trausti félaga sinna til að leiða listann til komandi alþingiskosninga.
Auk Hólmfríðar, Heiðu Guðnýjar og Kolbeins sóttust þeir Róbert Marshall, fyrrverandi þingmaður og upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og Almar Sigurðsson eftir því að leiða lista flokksins í kjördæminu.
Kosningaþátttaka í forvalinu var 68 prósent, samkvæmt tilkynningu frá flokknum, en alls greiddu 456 manns af 671 á kjörskrá atkvæði í forvalinu.
Gaf kost á sér þegar Ari Trausti sagðist ekki ætla fram á ný
Hólmfríður gaf það út snemma að hún hygðist gefa kost á sér til þess að leiða listann, eða einungis degi eftir að Ari Trausti Guðmundsson þingmaður flokksins í kjördæminu gaf það út að hann ætlaði ekki að sækjast eftir þingsæti að nýju. Það var í lok nóvember.
Hún hefur hefur verið virk í starfi VG undanfarin ár og er formaður svæðisfélags flokksins á Suðurnesjum.
Er hún tilkynnti um framboð sitt sagði hún að það skipti miklu að „íbúi af fjölmennasta og fjölbreyttasta svæði kjördæmisins leiði listann með jafnrétti, jöfnuð, lýðræði, sjálfbærni, fjölmenningu og réttlæti að leiðarljósi.“