Hommar hafa að jafnaði þriðjungi lægri tekjur en gagnkynhneigðir karlmenn þrátt fyrir að vera almennt menntaðri og atvinnuöryggi trans fólks er minna en hjá öðru hinsegin fólki. Þá finnst meirihluti hinsegin fólks halla á kjör og réttindi þess á vinnumarkaði. Þetta er meðal niðurstaðna úr greiningu BHM á hinsegin vinnumarkaði á Íslandi sem unnin var í samstarfi við Samtökin 78 og og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
Árið 2019 voru atvinnutekjur homma á ársgrundvelli um 6 milljónir króna eða þriðjungi lægri en hjá gagnkynhneigðum körlum sem höfðu um 8,9 milljónir króna í atvinnutekjur á árinu. „Munurinn er athyglisverður í ljósi þess að menntunarstig homma í rannsókninni er mun hærra en gagnkynhneigða samanburðarhópsins. Um 50% homma eru með háskólamenntun en aðeins 36% gagnkynhneigðra karla,“ segir um niðurstöður rannsóknarinnar. Þar segir einnig að hommar eru líklegri en gagnkynhneigðir karlar til þess að vinna í þjónustustörfum, „eða í þeim störfum sem oft hafa verið kölluð „kvennastörf“.“
Þessi kynhneigðarhalli er öfugur þegar horft er til kvenna. Lesbíur voru með um 13 prósent hærri atvinnutekjur en gagnkynhneigðar konur að meðaltali árið 2019. Atvinnutekjur lesbía var um 6,3 milljónir árið 2013 samanborið við 5,6 milljónir hjá gagnkynhneigðum konum. Það virðist ekki vera einsdæmi hér á landi því nýleg rannsókn sem unnin var eftir sömu aðferðafræði í Danmörku leiddi sambærilegar niðurstöður í ljós.
Atvinnuöryggið minnst meðal trans fólks
Sökum þess hve hátt hlutfall homma vinnur í þjónustugreinum á almennum vinnumarkaði komu þeir verst út úr heimsfaraldrinum þegar litið er til atvinnuleysis. Um 38 prósent homma þáðu atvinnuleysisbætur árið 2020 en hlutfallið fyrir karla í heild var 28 prósent. 23 prósent kvenna þáðu atvinnuleysisbætur á því ári.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að atvinnuöryggi trans fólks sé minna en hjá öðru hinsegin fólki. Um 70 prósent trans fólks segist hafa upplifað atvinnuleysi en til samanburðar er hlutfallið 40 prósent hjá þeim sem hafa sís-kynvitund.
Meirihluti svarenda, um 60 prósent, finnst halla á kjör og réttindi fólks á vinnumarkaði og telja sumir svarendur vinnumarkaðinn of sérsniðinn að þeim sem auðveldlega geta eignast börn.
Helmingur ánægður með stefnu stjórnvalda
„Aðeins um helmingur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni eru ánægð með stefnu stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks og aðeins um 20% trans fólks,“ segir um niðurstöður könnunarinnar. Mikill meirihluti vill að lögð verði aukin áhersla á greiningar og rannsóknir á aðstæðum hinsegin fólks á vinnumarkaði, svo sem hjá Hagstofu Íslands.
Engu að síður eru svarendur bjartsýnni um stöðu hinsegin fólks til framtíðar á Íslandi heldur en á heimsvísu. Einungis 20 prósent aðspurðra eru bjartsýn fyrir hönd hinsegin fólks á heimsvísu til framtíðar en 90 prósent þegar kemur að stöðunni hér á landi.
Fyrsti fasi rannsóknar sem snýr að greiningu á hinsegin vinnumarkaði á Íslandi sneri að mestu leyti á samanburði á stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Í tengslum við rannsóknina var framkvæmd spurningakönnun meðal hinsegin fólks en henni svöruðu 850 í júní og júlí.