Fjármálafyrirtækið SaltPay hefur ákveðið að segja upp nokkrum fjölda starfsmanna hér á landi, en fyrirtækið keypti Borgun í júlí á síðasta ári. Uppsagnirnar ná aðallega til starfsmanna sem hafa starfað við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er um hópuppsögn að ræða samkvæmt skilgreiningum laga um hópuppsagnir og hleypur fjöldi þeirra sem sagt var upp á tugum.
Ekki liggur þó að fullu fyrir hversu margir missa vinnuna þar sem hluta starfsmanna hefur verið boðið að ganga í ný störf hjá fyrirtækinu og ekki enn ljóst hversu margir ætla að þiggja slíkt tilboð.
Fækkun á hugbúnaðarsviði
Alls störfuðu um 130 manns hjá SaltPay hér á landi áður en til uppsagnanna kom. Síðan SaltPay keypti Borgun síðasta sumar hefur staðið yfir rýning á öllum kerfum fyrirtækisins og þróun nýrra lausna verið hafin.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að greiðslukerfi Borgunar hafi í grunninn byggt á kerfi sem orðið sé hátt í fjörutíu ára gamalt og ljóst hafi verið frá upphafi að því þyrfti að skipta út.
„Sú vinna hefur staðið yfir og er komin á það stig að ekki verður þörf fyrir allt það starfsfólk sem sinnt hefur gamla kerfinu. Af þessu leiðir að fækkun verður á hugbúnaðarsviði, auk þess sem aukin sjálfvirkni og bætt tækni hefur áhrif til fækkunar á öðrum sviðum. Rekstur fyrirtækisins hefur verið þungur á síðustu árum en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til munu þýða að ekki þurfi að koma til frekari uppsagna,“ segir í tilkynningu frá SaltPay.
Uppsagnirnar eru ekki sagðar eiga að hafa nein áhrif á viðskiptavini SaltPay.