„Ég veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja á þessu. Mér finnst eins og það sé verið að horfa algjörlega fram hjá núverandi verðbólgu sem eru fasteignaverðshækkanirnar. Og það er líka verið að horfa fram hjá rót, í rauninni, þessara launahækkunarfasa sem við lendum reglulega í sem er undirliggjandi óstöðugleiki í efnahagslífinu þar sem fasteignamarkaðurinn er mjög stór partur. Og það er pólitískt mál.“
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar í Silfrinu á RÚV í dag þegar hún var spurð út í orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um launahækkanir sem framundan eru.
Á fundi peningastefnunefndar í vikunni sagði hann orð verkalýðsforystunnar um að virkja ætti ákvæði í kjarasamningum um hagvaxtaraukann vegna mikils hagvaxtar, ofan á kjarasamningsbundnar launahækkanir um áramót, vera eins og verstu öfugmælavísur. „Eins og að vatn renni upp í móti,“ sagði hann og bætti við að hagvöxturinn núna væri að koma í kjölfar mikils samdráttar á síðasta ári vegna faraldursins. Benti hann á að þrátt fyrir hagvöxtinn undanfarið væri landsframleiðslan enn minni en fyrir faraldur. „Hagkerfið er að fá á sig launahækkanir sem ekki eru studdar af aukinni framleiðslu,“ sagði hann.
Pólitískar ákvarðanir hafa komið Íslendingum í þessa stöðu
Kristrún sagði í Silfrinu það vera pólitíska ákvörðun að reka húsnæðismarkaðinn eins og hann er rekinn í dag. „Það var pólitísk ákvörðun í fyrra að ákveða að fara í flestar aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í til þess að styðja við heimilin og fyrirtækin í gegnum bankakerfið. Það var ákveðið að skrúfa frá heilmiklu fjármagni og sagt við bankana: „Þið látið þetta fjármagn á þá staði sem þið viljið og er öruggast.“ Og við komum út úr þessu ástandi núna þrátt fyrir alla umræðu um að hagvöxtur eða samdráttur hafi verið minni en spár gerðu ráð fyrir en spár eru bara spár – og það vita það allir hagfræðingar og allir sem vinna við spágerð að ætla að segja það að einhvern tímann hafi verið spáð einhverju hræðilegu og síðan hafi það ekki raungerst að jafnmiklu marki það þýðir ekki endilega að það hafi verið gert það besta sem var hægt í stöðunni.
Af því við erum að koma út úr þessari stöðu engu að síður með mjög háa verðbólgu, með mjög hátt fasteignaverð og við erum líka að sjá sömu banka sem fengu lækkun á eiginfjárkvöðum, þeir fengu svigrúm til útlána, eru að skila methagnaði – tugmilljarða króna sem verða greiddir út – og miklar eignaverðshækkanir og það eru pólitískar ákvarðanir sem hafa komið okkur í þá stöðu sem við erum í.“
Pólitískar afleiðingar af ákvörðunum seðlabankastjóra
Kristrún hefur mestar áhyggjur af að umræða um verðbólgu, launahækkanir og hvernig seðlabankastjóri talar snúist um að aðgerðir seðlabankans séu svo hlutlausar að þær geti ekki haft pólitískar afleiðingar. „Það hefur bara gígantískar pólitískar afleiðingar að sjá eignarverðir rjúka upp, að sjá fasteignaverð rjúka upp og ef ríkisstjórnin ætlar bara að stíga til hliðar og segja: „Ja, við gerðum okkar. Svo gerði Seðlabankinn eitthvað og svo gerðu markaðir eitthvað.“ Mér finnst það bara ekki boðlegt í þessari stöðu.
Þetta er afleiðing af ákvörðunarfælni sem var til staðar í fyrra og að lokum langar mig að segja af því að það er oft viðkvæmni við það að stjórnmálamenn megi ekki gagnrýna seðlabankastjóra – en nú kem ég úr þannig bakgrunni úr hagfræðinni að það sé svona „holy grail“ sko, það verður að vera algjör lína þarna á milli. En við sjáum það alveg að það eru pólitískar afleiðingar af ákvörðunum þarna og ég vil sjá að ríkisstjórnin stígi þarna kröftuglega inn á húsnæðismarkaðinn og ráðist í ákveðnar aðgerðir sem tryggi það að markaðurinn sé ekki alltaf að sveiflast með fjármálasveiflunni. Þetta er ekki eins og hver annar eignamarkaður, við erum að reyna að reka samfélag hérna. Þetta snýst ekki bara um að láta fjármagn flæða eitthvað,“ sagði Kristrún.
Seðlabankastjóri hefur sagt að það þurfi að kæla niður húsnæðismarkaðinn. Spyrill Silfursins, Egill Helgason, sagði að vaxtahækkun væri tilraun til þess en hún kæmi náttúrulega illa í bakið á fjölda fólks. Kristrún sagði að vandinn við umræðuna um vaxtahækkanir væri að 2 prósent vextir væri ekki slæmt ástand. „Ég ætla bara að fá að fullyrða það hérna í ljósi sögunnar. Ég meina, það er 4,5 prósent verðbólga. Vandinn er afleiðing þess að beita þessu tæki svona kröftuglega í staðinn fyrir að beita ríkisfjármálunum meira í fyrra sem er sú að núna þegar vextir fara hækkandi þá mun fasteignaverð ekki lækka á móti. Og eftir stendur hópur af fólki sem var ekki í stöðu – var ekki í réttu fjölskyldunni, með rétta eiginféð á bak við sig, á rétta staðnum í lífi sínu – til þess að nýta þetta litla tímabil í sögunni undanfarin ár til þess að fara inn og bæta við sig skuldum og kaupa. Og það eru þeir einstaklingar sem sitja eftir með sárt ennið og við öll hin sitjum eftir með verðbólguna og hærri fasteignaskatta fyrir vikið.“
„Það gerist ekkert af sjálfu sér“
Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók við orðinu en hún telur að flestir séu sammála um það að Íslendingar séu að koma núna ótrúlega vel út úr hinu efnahagslega áfalli sem heimsfaraldurinn hefur valdið.
„Það gerist ekkert af sjálfu sér. Það gerist vegna þess að ríkissjóður brást rétt við. Og mér finnst mikilvægt að taka það fram hér við Kristrúnu að til dæmis bara Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri slíkar stofnanir hafa bent á það að þær aðgerðir sem hér var farið í hafi verið réttar – hafi verið góðar og hafi hjálpað til.
Við skulum heldur ekki líta fram hjá því að hækkun á fasteignaverði er ekkert einsdæmi hér á Íslandi. Við erum að sjá það í öllum löndunum hér í kringum okkur,“ sagði Guðrún.
Þurfum að vera með betri áætlanir
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins sagði að það skorti íbúðir. „Bara ef við lítum til dæmis á í október þá voru aðeins 1.500 íbúðir í boði. Við höfum aldrei séð minna framboð síðan að mælingar hófust. Þannig að við skulum líka hafa það á hreinu þegar við erum að tala um að ríkisstjórnin eigi að koma inn í þetta að við þurfum að eiga miklu betra samráð og sveitarfélögin þurfa náttúrulega að koma inn í þetta með því að auka framboðið, númer eitt tvö og þrjú. Og þarna held ég að sé einhver misbrestur.
Þarna er markaðsmiðbrestur á ferð og við verðum að gera þá kröfu að það sé meiri samfella í þessu vegna þess að þetta skýrir að hluta til þessa miklu hækkun. Auðvitað eru lægri vextir og vextir eru lægri núna en þegar við fórum inn í heimsfaraldurinn en það sem munurinn er hér á Íslandi og erlendis er þessi húsnæðisliður. Hann skýrir helminginn af verðbólgunni á meðan í Evrópu þá er það eldsneytisverð sem skýrir það þar.“
Hún sagði að Íslendingar þyrftu að vera með betri áætlanir til þess að tryggja þetta framboð á íbúðum. „Ég er alveg sammála því að það sé mjög varasamt þegar ungt fólk þarf að skuldsetja sig mjög mikið og við sjáum það auðvitað núna þar sem það er svo margir komnir yfir í óverðtryggð lán að vaxtalækkanir munu strax hafa þessi áhrif. En þarna þurfum við að gera betur.“
Sveiflurnar alltaf ýktari hér á landi
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar sagði að vaxtahækkanir hefðu miklar afleiðingar fyrir samfélagið.
„Höggið á heimili sem voru búin að skuldsetja sig alveg gríðarlega mikið verður tugþúsundum hærra á mánuði. Stóri fíllinn í þessu hér á Íslandi í herberginu er síðan alltaf það að við erum með sveiflóttan gjaldmiðil, við erum með krónuna sem gerir það að verkum að sveiflurnar verða alltaf ýktari hér. Við erum að fara að horfa fram á það vaxtahækkunarferlið verði mun ýktara hér á Íslandi heldur en annars staðar,“ sagði hann.