Eftir átján daga, eða 18. júní, ganga Danir til kosninga. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra tilkynnti þetta síðastliðinn miðvikudag. Framundan er því stutt kosningabarátta og allt bendir til að hún verði mjög hörð þar sem barist verður um hvert atkvæði. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum nýtur stjórnarandstaðan,bláa blokkin svokallaða, ívið meira fylgis en rauða blokkin, stjórnarflokkarnir og stuðningsflokkar stjórnarinnar. Munurinn er aðeins um þrjú prósentustig, en sérstaka athygli vekur að nær fjórðungur kjósenda er óákveðinn og það skiptir því miklu á hvora sveifina sá hópur leggst.
Bláa blokkin - rauða blokkin
Hans Engell, fyrrverandi formaður Danska Íhaldsflokksins sagði í umræðuþætti í sjónvarpinu fyrir tveimur dögum að hér í Danmörku væru eiginlega bara miðjuflokkar, þótt þeir teldu sig tilheyra annarri hvorri blokkinni, þeirri bláu eða rauðu. Flokkarnir væru sammála um flest sem máli skipti en deildu um smáatriðin. Það væri ágætt fyrirkomulag!
Bláa blokkin svonefnda (hægri miðja) samanstendur af Venstre, Íhaldsflokknum, Danska Þjóðarflokknum, Frjálslynda Bandalaginu og Kristilegum demókrötum (sem nú eiga ekki fulltrúa á þingi).
Rauðablokkin (vinstri miðja) samanstendur af Sósíaldemókrötum, De Radikale Venstre, Sósíalíska þjóðarflokknum, Einingarlistanum (sem er utan stjórnar, en mjög áhrifamikill) og (væntanlega) hinum nýja flokki Alternativet. Í Danmörku er löng hefð fyrir minnihlutastjórnum sem njóta stuðnings flokka utan stjórnarinnar.
Forsætisráðherrann fór vel af stað en Lars Løkke illa
Hér í Danmörku þykir það skipta miklu máli, um framhaldið, hvernig leiðtogar flokkanna standa sig í upphafi kosningabaráttunnar. Kannanir fjölmiðla sýndu að Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra þótti standa sig mun betur en Lars Løkke Rasmussen leiðtogi Venstre. Sama dag og boðað var til kosninga hélt Lars Løkke fréttamannafund til að kynna helstu stefnumál flokksins. Hann lagði áherslu á að Venstre hefði að leiðarljósi að það væri eftirsóknarvert að vinna og þeir sem það gera eigi að bera meira úr býtum en hinir sem lifa á atvinnuleysisbótum (hér kallaðir dagpeningar) eða öðrum framfærslulífeyri. Máli sínu til stuðnings nefndi Lars Løkke að hann hefði fyrir skömmu heimsótt fyrirtæki í nágrenni Kaupmannahafnar og þar hefði hann frétt um mann sem sagt hefði upp vinnunni af því að hann fengi nánast jafnmikið borgað í framfærslulífeyri og næmi laununum fyrir fulla vinnu. Þegar spurt var hver þessi maður væri og hvaða starf hann hefði haft með höndum vafðist Lars Løkke tunga um tönn og svaraði eitthvað á þá leið að sér hefði einfaldlega verið sagt þetta. Þetta þótti fréttamönnum ekki sérlega greinagott svar og gengu á flokksformanninn og vildu vita nánar um þennan mann. Svör við þeim spurningum fengust ekki. Þessu gerðu fjölmiðlarnir sér mat úr og voru fljótir að rifja upp ýmis fyrri ummæli Lars Løkke. "Þetta var ekki vel heppnað upphafsatriði kosningabaráttunnar" sagði stjórnmálaskýrandi Berlingske. Daginn eftir ræddi framkvæmdastjóri umrædds fyrirtækis við fréttamenn og sagðist hafa sagt Lars Løkke þessa sögu en sagði jafnframt að maðurinn (sá sem sagði upp vinnunni ) hefði sagt sér þetta. Fréttamenn voru þó engu nær um sannleiksgildi frásagnarinnar og áttu erfitt með að átta sig á útreikningunum.
Ólík staða formanna Sósíaldemókrata og Venstre
Haldi stjórnin meirihluta sínum (með stuðningi annarra flokka rauðu blokkarinnar) er sjálfgefið að Helle Thorning-Schmidt sitji áfram í forsætisráðuneytinu. Ef bláa blokkin verður í meirihluta eftir kosningar verður það Lars Løkke Rasmussen sem sest í stól forsætisráðherra. Staða þessara tveggja formanna innan eigin flokks er nokkuð ólík. Staða Helle Thorning innan flokks sósíaldemókrata er mjög sterk um þessar mundir og innan flokksins ríkir ekki valdabarátta. Varaformaður flokksins er Frank Jensen yfirborgarstjóri í Kaupmannahöfn sem aðspurður sagði pistlaskrifara að hann væri ekki á leið í landsmálapólitíkina. Mette Frederiksen dómsmálaráðherra hefur oft verið kölluð krónprinessa flokksins en hún hefur iðulega svarað því til að Helle Thorning, njóti fulls trausts flokksmanna. Sama gildir um dönsku þjóðina, hún treystir Helle Thorning best allra flokksleiðstoga.
Hjá Venstre er staðan önnur. Þótt allt sé slétt og fellt á yfirborðinu ríkir ekki einhugur innan flokksins um Lars Løkke. Hann er jafnframt sá flokksformaður sem minnsts trausts nýtur meðal dönsku þjóðarinnar. Fyrir nokkrum mánuðum gerði varaformaðurinn Kristian Jensen tilraun til að velta Lars Løkke úr sessi. Á síðustu stundu, í kjallaraherbergi á fundarstaðnum, gerðu þeir samkomulag og ekki kom til þess að kosið yrði milli þeirra tveggja. Síðar kom í ljós að Lars Løkke hafði hótað Kristian Jensen að ef hann léti til skarar skríða gegn sér myndi Løkke armurinn í flokknum bjóða Sören Gade, fyrrverandi varnarmálaráðherra fram til formanns, en hann dró sig út úr pólitík fyrir nokkrum árum og hyggur nú á endurkomu. Milli þeirra Lars Løkkes formanns Venstre og varaformannsins Kristians Jensens ríkir semsé ekki vinátta. "Ég myndi ekki hringja í Kristian til að bjóða með mér í bíó og sama gildir örugglega um hann" sagði Lars Løkke nýlega í viðtali.
Margir nýir flokksformenn
Á danska þinginu sitja nú fulltrúar níu flokka. Formenn fimm þeirra hafa aldrei leitt flokk sinn í kosningum. Sumir úr þessum hópi eiga erfitt verk fyrir höndum.
Fyrst skal nefna Søren Pape, formann Det Konservative Folkeparti, Íhaldsflokksins. Hann situr ekki á þingi en hafði starfað fyrir flokkinn í sveitastjórnarmálum. Íhaldsflokkurinn er í dag einungis skugginn af sjálfum sér, smáflokkur með innan við 5 prósenta fylgi. Miðað við kannanir tapar hann fylgi frá síðustu kosningum sem voru þær lökustu í sögu flokksins. Íhaldsflokkurinn var í ríkisstjórnarsamstarfi með Venstre á síðasta kjörtímabili.
Morten Östergaard er nýr formaður De Radikale Venstre eða Radikale eins og flokkurinn er oftast kallaður. Radikale eiga sæti í fráfarandi ríkisstjórn og fengu 9,5 prósenta fylgi í síðustu kosningum. Fyrrverandi formaður flokksins Margrethe Vestager var talinn eiga stærstan þátt í velgengni flokksins þá en miðað við kannanir tapar flokkurinn næstum helmingi fylgisins frá 2011 í komandi kosningum.
Sosialistisk Folkeparti, Sósíalíski þjóðarflokkurinn hefur líka fengið nýjan formann, Piu Olsen Dyhr. Flokkurinn hefur gengið í gegnum miklar sviptingar á núverandi kjörtímabili, Pia Olsen er þriðji flokksformaðurinn frá 2011. SF, eins og flokkurinn er kallaður, dró sig út úr ríkisstjórn snemma árs 2014 vegna ágreinings varðandi sölu á hlut ríkisins í orkufyrirtækinu DONG. Tveir fyrrverandi ráðherrar flokksins sögðu sig þá úr flokknum og gengu til liðs við aðra flokka á þinginu. Flokknum er spáð miklu fylgistapi í komandi kosningum.
Danski þjóðarflokkurinn í stórsókn
Kristian Thulesen Dahl tók við formennsku í Dansk Folkeparti, Danska Þjóðarflokknum, í ágúst 2012 en Pia Kjærsgaard hafði gegnt formennskunni frá stofnun flokksins 1995. Kristian Thulesen Dahl nýtur mikils persónufylgis og er flokknum spáð mikilli fylgisaukningu í komandi kosningum. Flokkurinn hefur aldrei átt sæti í ríkisstjórn en var hinsvegar stuðningsflokkur síðustu ríkisstjórnar og mjög áhrifamikill. Flokksformaðurinn hefur sagt að hann stefni ekki að ríkisstjórnarþátttöku á komandi kjörtímabili. Danski þjóðarflokkurinn hefur mjög eindregna afstöðu í málefnum innflytjenda, vill takmarka fjölda þeirra mjög, er gagnrýninn á Evrópusambandið og lætur sér annt um málefni tekjulægri þegna þjóðfélagsins.
Alternativet - Valkosturinn
Loks er það nýi flokkurinn Alternativet, Valkosturinn. Stofnandi hans og formaður Uffe Elbæk varð þingmaður Radikale Venstre og menningarmálaráðherra eftir kosningarnar 2011 en sagði sig úr flokknum haustið 2012 og hefur síðan verið það sem kallað er lösgænger, lausagöngumaður. Hann stofnaði Alternativet árið 2013. Flokkurinn er kallaður "jókerinn" í danskri pólitík því gengi hans getur ráðið úrslitum um hvort núverandi ríkisstjórn heldur velli. Til að fá þingmenn kjörna þarf tveggja prósent fylgi. Lengi vel benti fátt til að Alternativet næði þessum mörkum, ef flokkurinn nær því ekki falla atkvæði honum greidd dauð. Þau atkvæði gætu ráðið úrslitum um hvort stjórnin stendur eða fellur því öruggt er talið að flokkurinn standi með rauðu blokkinni, núverandi stjórnarflokkum. Þess vegna hafa fjölmiðlar velt fyrir sér hvort stjórnarflokkarnir reyni að sjá til þess að Alternativet nái nógu miklu fylgi til að komast yfir tveggja prósenta múrinn. Flokkurinn leggur mikla áherslu á umhverfismál.
Um hvað er kosið?
Þessa spurningu bar bandarískur fréttamaður upp eftir að hann hafði hlustað á talsmenn flokkanna sem eiga fulltrúa á þingi útskýra stefnumálin. Von að spurt sé. Fyrir utanaðkomandi virðist nefnilega sem hér sé ætíð verið að kýta um áhersluatriði fremur en bein stefnumál. Aðeins örfáir dagar eru nú liðnir síðan boðað var til kosninganna og því líklegt að ágreiningur um tiltekin mál eigi eftir að verða skýrari eftir því sem nær dregur kjördegi. Stefna flokkanna í málefnum innflytjenda verður örugglega meðal þess sem mikið verður rætt en margir landsmenn virðast aðhyllast skýrari línur í þeim efnum. Danski þjóðarflokkurinn hefur haft skýra afstöðu, vill einfaldlega standa á bremsunni og takmarka mjög fjölda þeirra sem fá að setjast að í landinu. Allir viðurkenna þó að flóttamannavandinn sé gríðarlegur og þar verði allar þjóðir að sýna ábyrgð. Önnur mál, stefna í skattamálum og opinberum útgjöldum eru gamlir kunningjar eins og einn stjórnmálaskýrandi orðaði það. Á umræðufundi í danska sjónvarpinu DR, voru þátttakendur (stjórnmálaskýrendur) sammála um að kosningarnar snúist miklu fremur um menn en málefni.