Viðskiptablaðamaðurinn Hörður Ægisson hefur sagt upp störfum sem ritstjóri Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um efnahagsmál. Þetta kemur fram í frétt á vef Viðskiptablaðsins, sem segist einnig hafa heimildir fyrir því að nýr viðskiptamiðill kunni að vera í pípunum.
Hörður hefur verið ritstjóri Markaðarins frá því árið 2017. Auk hans hafa tveir aðrir blaðamenn Markaðarins sagt upp störfum, þeir Þorsteinn Friðrik Halldórsson og Þórður Gunnarsson, samkvæmt því sem segir í frétt Viðskiptablaðsins.
Sviptingar hafa verið á Fréttablaðinu undanfarið, en Jón Þórisson hætti sem ritstjóri blaðsins fyrr í sumar. Sigmundur Ernir Rúnarsson var ráðinn ritstjóri blaðsins í hans stað.
Í frétt Viðskiptablaðsins er haft eftir Herði að uppsögn hans hafi ekkert með ráðningu Sigmundar Ernis sem ritstjóra að gera, heldur hafi hann sagt starfi sínu lausu áður en Sigmundur Ernir hafi tekið við. Hann muni starfa áfram þar til eftirmaður hans sé fundinn.
Áður er Hörður var ráðinn ritstjóri Markaðarins árið 2017 hafði hann starfað í tvö ár sem viðskiptaritstjóri á DV. Þar áður hafði hann verið viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu um árabil.