„Ég hef í hvívetna fylgt öllum þeim gildandi siðareglum sem eru um hagsmunaárekstra í starfi blaðamanna,“ skrifar Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu, á Facebook-síðu sína vegna fréttar Kjarnans um að hann eigi hlutabréf í þrettán Kauphallarfélögum að andvirði níu milljóna króna.
Hörður undrast þá túlkun formanns Blaðamannafélags Íslands á siðareglum félagsins, þar sem segir að blaðamaður skuli varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir af fyrirtækjum sem hann eigi sjálfur aðild, að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir eigi. Hann skrifar að standi vilji einhverra til þess að endurskoða siðareglur Blaðamannafélagsins, meðal annars hvort blaðamönnum verði gert að halda úti hagsmunaskráningu líkt og á við um kjörna fulltrúa í þeim tilgangi að auka gegnsæi, sé það „sjálfsagt mál“ sem kalli þá á meiri og almennari umræðu innan Blaðamannafélagsins.
Hörður segir stærstu einstöku fjárfestingu sína vera kaup á húsnæði sem hafi verið fjármögnuð með láni frá viðskiptabanka, rétt eins og eigi við um flesta Íslendinga. „Af því leiðir að ég hef ríkra hagsmuna að gæta – mun meiri en nokkurn tíma af gengisþróun lítillar hlutabréfaeignar félaga í Kauphöllinni – af þróun fasteignaverðs og vaxta á fjármálamarkaði,“ skrifar Hörður en að aldrei hafi hins vegar hvarflað að honum að það geri hann vanhæfan til að fjalla um fasteignamarkaðinn eða vaxtaákvarðanir Seðlabankans. Væri svo hlytu enda nær allir fjölmiðlamenn að falla undir sama hatt.
„Ef túlkun formanns félagsins á fyrrnefndri grein í siðareglunum væri hins vegar rétt, sem auðvitað fær ekki staðist, er sennilegt að fjöldi blaðamanna sé að óbreyttu vanhæfur til að fjalla meðal annars um viðskipti, húsnæðismarkaðinn, vaxtaákvarðanir og þátttöku lífeyrissjóða í atvinnulífinu vegna ráðstöfunar á sparnaði, íbúðakaupa og aðildar að ýmiss konar hagsmunasamtökum,“ skrifar Hörður. „Verði það niðurstaðan mun ég tæpast sjá mér fært að vera áfram í félaginu og sinna þeim trúnaðarstörfum sem ég hef gegnt þar síðustu ár.“
Í frétt Kjarnans í gær kom fram að Hörður á fimm milljóna króna hlut í Arion banka og eins miljóna króna hlut í Marel. Hann á einnig yfir 100 þúsund króna hlut í Kviku, Icelandair, Reitum og Brimi. Í fréttinni kom einnig fram að Hörður hefur það sem af er ári skrifað að minnsta kosti nítján fréttir um Arion banka og eina frétt um Marel. Að auki hefur hann tekið viðtal við sérfræðing hjá Arion banka í sjónvarpsþætti Markaðarins og skrifað fjölda annarra frétta um hin félögin sem hann á hlutabréf í.
Kjarninn ákvað í gær að gera það tortryggilegt að ég sem ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu hafi kosið að ráðstafa...
Posted by Hörður Ægisson on Tuesday, June 29, 2021