Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fór yfir afléttingaráætlun varðandi sóttvarnaráðstafanir og samkomutakmarkanir á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Horft er til þess að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt í lok júní, eða þegar um 75 prósent landsmanna yfir 16 ára aldri hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni.
Svandís sagði í samtali við Vísi eftir ríkisstjórnarfund dagsins að það búið væri að teikna upp „fjórar vörður á leiðinni“ að afléttingu sóttvarnaráðstafana í samfélagi, í takt við þann árangur sem væri að nást í bólusetningu.
Fyrsta varðan hafi þegar náðst, nú um miðjan mánuðinn, þegar yfir 25 prósent landsmanna höfðu fengið að minnsta kosti einn skammt af bólusetning. Síðan þegar fleiri verða bólusettir að minnsta kosti einu sinni verði slakað enn frekar á aðgerðum, í þremur skrefum.
Svandís sagði að afléttingaráætlunin yrði útskýrð nánar í fréttatilkynningu sem nú hefur borist, „með það skýrum hætti að allir sjái á hvaða leið við erum, þannig að við höfum vegvísi fyrir þessar síðustu vikur.“
Hér að neðan má sjá þennan vegvísi.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að afléttingaráætlunin verði til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, þar verði hægt að koma á framfæri umsögnum og athugasemdum til 3. maí.
Áætlun ráðuneytisins sé sett fram með hliðsjón af því hversu hratt gangi að bólusetja landsmenn og jafnframt með fyrirvara um mat sóttvarnalæknis á aðstæðum og stöðu faraldursins á hverjum tíma.
Sextán smit greindust innanlands í gær, en þar af voru þrettán manns í sóttkví.