Aðeins 18 prósent þeirra hljómsveita sem troða upp á Hróarskelduhátíðinni í sumar, eru skipaðar konum. Danski fréttamiðillinn Information greinir frá þessarri athyglisverðu staðreynd.
Jafnréttismiðstöð Danmerkur, KVINFO, blés til óformlegs fundar vegna þessa á dögunum, þar sem staðan var skeggrædd. Þar fullyrti forstöðukona miðstöðvarinnar, Nina Groes, að það geti ekki staðist að karlar séu fimm sinnum betri en konur að búa til tónlist.
Samkvæmt áðurnefndri umfjöllun Information virðist lítil þróun eiga sér stað í tónlistarsenunni þegar kemur að jafnrétti. Eins og fyrr greinir eru konur í miklum minnihluta á meðal flytjenda sem stíga munu á stokk á Hróarskelduhátíðinni þetta árið. Þær eru þó örlítið fleiri en í fyrra, þegar um 15 prósent flytjenda voru kvenkyns.
Endurspeglar stöðuna í tónlistarbransanum
Haft er eftir tónlistarstjóra Hróarskelduhátíðarinnar, Anders Wahrén, að kynjahlutfallið endurspegli stöðu mála í tónlistarbransanum. Konur verði ekki þvingaðar til að spila á hátíðinni, þar ráði einungis gæði tónlistarinnar um hverjum sé boðið að stíga á stokk. Þar skipti kyn, kynþáttur eða trú engu máli. Sjálfur segist hann fylgjandi öllum mögulegum aðgerðum sem lúti að því að rétta hlut kvenna í tónlistarbransanum. „Í fyrra fengum við tvo meðlimi hljómsveitarinnar Pussy Riot til að halda fyrirlestur á hátíðinni sem lukkaðist afar vel. Það kemur vel til greina að gera eitthvað svipað aftur núna, en ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum,“ hefur Information eftir tónlistarstjóra Hróarskelduhátíðarinnar.
Anders Wahrén, tónlistarstjóri Hróarskelduhátíðarinnar. Mynd: Julie Hjort
Henrik Marstals, tónlistarmaður og rithöfundur, sem hefur hvað mest látið sig varða ójafnt kynjahlutfall í tónlistarbransanum, segir í umfjöllun Information: „Það eru bara nokkur róttæk dagblöð sem eru á þeirri skoðun að við séum á rangri braut í þessum efnum, og þetta sé eitthvað sem beri að taka alvarlega. Hróarskelduhátíðin er á mörgum sviðum frumkvöðull og fyrirmynd annarra tónlistarhátíða og gæti vakið vitund annarra hátíða með því að setja þetta málefni á oddinn.“
Hróarskelduhátíðin hefur í gegnum tíðina stært sig af samfélagslegri ábyrgð sinni, hvort sem kemur að kyni, kynþáttum eða mannréttindum.
Hér má sjá plakat hátíðarinnar þar sem er búið að taka út karlkyns flytendur. Í umfjöllun Information er plakatið gagnvirkt.