Talsvert minna af umsóknum vegna fjárhagsvanda bárust umboðsmanni skuldara frá fyrsta janúar til fyrsta júlí í ár samanborið við sama tímabil síðustu þrjú ár. Þó bárust fleiri umsóknar vegna greiðsluaðlögunar einstaklinga en á sama tímabili síðustu þrjú ár eða alls 258 umsóknir það sem af er ári. Þetta kemur fram í minnisblaði umboðsmanns skuldara.
Úrræði fyrir þá sem eiga í verulegum greiðslu- og skuldavanda
Alls hafa 611 umsóknir um úrræði vegna fjárhagsvanda borist umboðsmanni skuldara á árinu 2019, sem er 15 prósent færri umsóknir en á sama tímabili og í fyrra þegar umsóknirnar voru 718 talsins. Þá hefur umboðsmanni borist alls 258 umsóknir um greiðsluaðlögun það sem af er ári sem er tæplega þriðjung fleiri umsóknir en á sama tímabili í fyrra.
Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem eiga í verulegum greiðslu- og skuldavanda. Úrræðið felur í sér frjálsa samninga milli einstaklinga og kröfuhafa með milligöngu umboðsmanns skuldara. Þær skuldir sem samningar um greiðsluaðlögun ná ekki til eru skuldir vegna meðlags, skuldir vegna námslána og skuldir vegna sekta.
Vaxandi hópur ungs fólks hefur sitt fjárhagslega sjálfstæða líf með neysluskuldir í farteskinu
Í greiningu umboðsmanns skuldara á þeim sem sækja um greiðsluaðlögun má sjá að ákveðin kynslóðaskipti hefur orðið í þeim hópi. Mikil fjölgun hefur orðið í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, sá aldurshópur hefur farið úr því að vera 5 prósent umsækjenda um fjárhagsaðstoð hjá embættinu árið 2012 í 27,3 prósent árið 2018. Umsækjendur í aldurshópnum 30 til 39 ára voru 30,1 prósent allra umsækjenda og voru því fólk á aldrinum 18 til 39 ára 57,4 prósent umsækjenda.
Í yngsta aldurshópnum 79 prósent umsækjenda með skyndilán. Þá er ekki aðeins verið að tala um hin víðfrægu smálán heldur býður nú fjöldi fjártæknifyrirtækja og banka upp á svokölluð skyndilán. Það eru lán sem tekin eru rafrænt og eiga það sameiginlegt að einfalt er að sækja um þau á hvaða tíma sólarhrings og eru þau afgreidd afar skjótt. Kostnaður slíkrar lántöku getur orðið mjög hár og hefur fólk steypst í skuldir hratt með töku margra slíkra lána á stuttum tíma. Skyndilán voru 22 prósent af heildarskuldum umsækjanda á þessu aldursbili.
Umboðsmaður skuldara segir það vera verulegt áhyggjuefni að enn skuli fjölga í hópi umsækjenda á þessum aldri og hefur því kallað eftir aðgerðum vegna vaxandi vanda fólks vegna skyndilána hér á landi.
Starfshópur um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja hefur einnig skilað umhverfismála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tillögumtil úrbóta. Þá er meðal annars lagt til að efla fjármálalæsi í grunnskólum og takmarka markaðssetningu skyndilána en henni er beint í miklum mæli að yngri kynslóðinni ásamt öðrum viðkvæmum hópum. Auk þess er lagt til að setja á laggirnar miðlægan skuldagrunn