Bára Huld Beck

Sífellt fleira ungt fólk með neysluskuldir á bakinu

Vaxandi hópur ungs fólks er að hefja sitt fjárhagslega sjálfstæða líf með neysluskuldir í farteskinu. Með fjölgun lánveitenda og rafrænna lánsmöguleika er auðveldara að taka fjölda skyndilána á stuttum tíma og því margir sem steypast í skuldir hratt. Gífurleg aukning hefur orðið í yngsta aldurshópnum sem leitar sér aðstoðar hjá umboðsmanni skuldara og segir embættið því nauðsynlegt að grípa til aðgerða vegna skyndilána.

Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg aukning í aldurshópnum 18 til 29 ára sem leitar til Umboðsmanns skuldara vegna alvarlegs fjárhagsvanda en 79 prósent þeirra eru með svokölluð skyndilán. Þá er ekki aðeins verið að tala um hin víðfrægu smálán heldur býður nú fjöldi fjártæknifyrirtækja og banka upp á svokölluð skyndilán. Það eru lán sem tekin eru rafrænt og eiga það sameiginlegt að einfalt er að sækja um þau á hvaða tíma sólarhrings og eru þau afgreidd afar skjótt. Kostnaður slíkrar lántöku getur orðið mjög hár og hefur fólk steypst í skuldir hratt með töku margra slíkra lána á stuttum tíma.

Umboðsmaður skuldara hefur kallað eftir aðgerðum vegna vaxandi vanda fólks vegna skyndilána hér á landi. Starfshópur um end­ur­skoðun á starfs­um­hverf­i s­má­lána­fyr­ir­tækja hefur einnig skilað umhverfismála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tillögum til úrbóta. Þá er meðal annars lagt til að efla fjármálalæsi í grunnskólum og takmarka markaðssetningu skyndilána en henni er beint í miklum mæli að yngri kynslóðinni ásamt öðrum viðkvæmum hópum. Auk þess er lagt til að setja á laggirnar miðlægan skuldagrunn.

Síversnandi skuldastaða ungs fólks

Umsóknum um fjárhagsaðstoð hefur fjölgað í heildina hjá Umboðsmanni skuldara undanfarin ár og þá sérstaklega hjá aldurshópnum 18 til 29 ára. Sá aldurshópur hefur farið úr því að vera 5 prósent umsækjenda um fjárhagsaðstoð hjá embættinu árið 2012 í 27 prósent árið 2018. Umboðsmaður skuldara segir það vera verulegt áhyggjuefni að enn skuli fjölga í hópi umsækjenda á þessum aldri. 

Mynd:Umboðsmaður skuldara

Í þeim aldurshópi voru 79 prósent umsækjenda með skyndilán. Umboðsmaður skuldara hefur skilgreint skyndilán sem þau lán sem tekin eru á vefsíðum eða með notkun smáforrita í farsímum. Þau eiga það sameiginlegt að einfalt er að sækja um þau og eru þau afgreidd afar skjótt. Bæði getur verið um að ræða lán sem tekið er samhliða kaupum á vöru eða þjónustu en einnig lán þar sem ákveðin fjárhæð er lögð inn á reikning lántaka með stuttum lánstíma. Sam­kvæmt emb­ætt­inu eiga þeir ein­stak­lingar sem leituðu til þeirra það sam­eig­in­legt að hafa tekið fjölda skyndilána á ­stuttum tíma og komið sér í tölu­verðar skuld­ir. Á ár­inu 2018 var hlut­fall skyndilána 22 pró­sent af heildarfjár­skuld­bind­ingu þess­a hóps.  

Smálán heyra ekki sögunni til

Eftir efnahagshrunið árið 2008 birtust á sjónarsvið landsmanna smálánafyrirtæki sem buðu upp á svokölluð SMS-lán. Fyrirtækin lánuðu lágar upphæðir til skamms tíma. Kostnaður vegna lánanna gat verið gríðarlega hár en fyrir 10.000 króna lán hjá smálánafyrirtækinu Kredia voru nafnvextir á ársgrundvelli tæp 608 prósent. Í viðtali við Morgunblaðið í október 2009 sagði Leifur Haraldsson, þáverandi forstjóri Kredia, að litið væri á þessa þóknun sem lántökukostnað fremur en vexti. 

Eftir mikla opinbera og gagnrýna umræðu um starfsemi og „ofurvexti“ smálánafyrirtækja voru í nóvember 2013 samþykkt lög um neytendalán á Alþingi. Með þeim voru starfseminni settar skorður og þak sett á þann kostnað sem lánveitandi má leggja á lánin. Í nýlegri skýrslu starfshóps nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamálaráðherra um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja er greint frá því að í fyrstu hafi smá­lána­fyr­ir­tæki, sem hófu starf­semi sína fyrir gild­is­töku laga um neyt­enda­lán, mark­visst reynt að snið­ganga ákvæði lag­anna, þó með tak­mörk­uðum árangri. 

Nú hafa þau hins vegar öll hætt starf­semi sinni hér á landi en vöru­merki þess­ara smá­lána­fyr­ir­tækja lifa þó enn og þjón­ustan stendur íslenskum neyt­endum enn þá til boða í gegnum erlenda lög­að­ila. Í skýrsl­unni segir að ætla verði að ástæðu umrædds fyr­ir­komu­lags megi rekja til ófrá­víkj­an­legra reglna um hámark árlegrar hlut­falls­tölu kostn­aðar í neytendalánslögum. Því hafi það að færa þjónustuna til útlanda verið enn ein leið­in til að kom­ast hjá fyrr­greindu kostn­að­ar­þaki.

Bára Huld Beck

Aðgengi að lánum mun sjálfvirkara og auðveldara

Með tilkomu smálána átti sér stað aukin sjálfvirknivæðing í lánastarfsemi hér á landi sem er þó einnig alþjóðleg þróun. Mikil fjölgun hefur orðið á fyrirtækjum sem bjóða nú upp lögleg neytendalán, eða svonefnd skyndilán, þar sem hægt er að fá lán rafrænt á bilinu frá nokkrum tugum þúsunda til nokkurra milljóna króna og fá það nánast samstundis eða innan sólarhrings. Meðal þeirra fyrirtækja eru fjártæknifyrirtæki líkt og Aur, Netgíró og Framtíðin en Framtíðin býður nú einnig upp á rafrænt fasteignalán. Auk þess bjóða nú Arion banki og Íslandsbanki upp á rafræn skammtímalán sem hægt er sækja um í gegnum síma eða tölvu og fá það greitt nánast samstundis eða innan sólarhrings. 

Skyndilán bera að jafnaði háa vexti enda oftast tekin til skamms tíma en auk þess fylgja þeim lánum ýmis gjöld og kostnaður, til dæmis lántökugjald og greiðslugjald. Kostnaðurinn við lánin getur því verið gríðarlega hár án þess að neytandi átti sig á því. Því er notuð árleg hlutfallstala kostnaðar, ÁHK, sem er prósentutala þar sem allur árlegur kostnaður af láninu er settur í eina prósentutölu. Á vefsíðunni Aurbjörg er hægt að bera saman ÁHK skammtímalán en algengt er að ársvextir skammtímalána geti verið kringum 10 til 13 prósent en við það bætist til að mynda 4 prósent lántökugjald og annar kostnaður líkt og greiðslugjald. Við það getur árleg hlutfallstala kostnaðar farið allt upp í 40 til 50 prósent en í neytendalánslögum kemur fram að ÁHK megi ekki vera hærra en 50 prósent að viðbættum stýrivöxtum. 

Árlegur hlutfallslegur kostnaður breytist einnig eftir tíma, fjárhæð lánsins sem og lánshæfismati lántaka. Samkvæmt neytendalögum ber lánveitendum að óska eftir lánshæfismati lántaka og býðst neytendum skammtímalána mismunandi kjör eftir því í hvaða lánshæfisflokki neytandi er. Ásta Sigrún Helgadóttir sem gegnir embætti Umboðsmanns skuldara segir í samtali við Kjarnann að neytendur átti sig því oft ekki á heildarkostnaði skyndilána. Neytendum birtast fyrst bestu mögulegu kjör neytendalána eða fyrir þá lántaka sem eru í lánshæfisflokki A en Ásta Sigrún bendir á að meirihluti þeirra aðila sem taki skyndilán eru ekki í A flokki. Mis­mun­andi er eftir fyr­ir­tækjum hvar í ferl­inu hægt sé að nálg­ast slíkar upp­lýs­ing­ar, en oft sé það ekki fyrr en á loka­stigum lán­tök­unn­ar þegar lánhæfismat er staðfest.

Einstaklingar sem leita sér aðstoðar hjá Umboðsmanni skuldara eiga það sameiginlegt að hafa tekið fjölda skyndilána á stuttum tíma og komið sér í töluverðar skuldir.
Umboðsmaður skuldara

Má ekki gleyma að greiðsluerfiðleikar eru alvarlegt vandamál

Með fjölgun lánveitenda verður æ auðveldara að taka lán en einnig auðveldara að taka mörg lán á stuttum tíma. Í mörgum tilfellum nýrra fjártæknifyrirækja er engri viðskiptasögu að dreifa á milli einstaklinga og lánveitanda. Í bönkum er hægt að byggja lánshæfismat einstaklinga út frá forsendum um skilvísi lántaka, viðskiptasögu og taka tillit til launa áður en til dæmis skyndilán eru veitt. Fyrirtæki  geta sótt lánshæfismat lántakenda til Creditinfo en þar fást ekki upplýsingar um önnur skammtímalán nema lántaki hafi lent á vanskilaskrá. 

Ásta Sigrún Helgadóttir, Umboðsmaður skuldara. Mynd: Umboðsmaður AlþingisÁsta Sigrún segir að því sé hægt að taka mörg skyndilán hjá mismunandi fyrirtækjum á stuttum tíma og skuldsetning neytenda geti því átt sér stað gríðarlega hratt. Hjá þeim hópi sem leitar til Umboðsmanns skuldara segir hún að algengt sé að fólk hafi lent í vítahring og tekið skyndilán til að borga önnur skyndilán og steypst því gríðarlega hratt í miklar skuldir. 

Ásta Sigrún bendir jafnframt á að því megi ekki gleyma  að greiðsluerfiðleikar séu mjög alvarlegt vandamál. Hún minnir á að þeir einstaklingar sem leiti til Umboðsmanns skuldara sé aðeins brot af þeim sem lenda í fjárhagsvanda vegna skuldsetningar og embættið sé í raun einskonar bráðamóttaka og margir finni aðrar leiðir til að leysa úr fjárhagsvanda. Því séu tölur embættisins jafnvel aðeins toppurinn á ísjakanum. 

Svipaða þróun má sjá á nýskráningum á vanskilaskrá Creditifno en þeim hefur farið fjölgandi hjá síðustu mánuðum eftir stöðuga fækkun árin á undan. Í mars 2019 voru tæplega nítján þúsund manns á vanskilaskrá, þar af eru yfir þúsund manns á aldrinum 21 til 24 ára og 166 ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára. Að lenda á vanskilaskrá getur haft afleiðingar til langs tíma en Creditinfo hefur heimildir til að nota fyrrum skráningar við gerð lánshæfismats í allt að fjögur ár.

Samkvæmt greiningu Umboðsmanns skuldara er meirihluti umsækjenda um fjárhagsaðstoð einstaklingar eða einstæðir foreldrar. Jafnframt er meirihluti þeirra sem sækja um aðstoð oft í viðkvæmri fjárhagslegri stöðu. Meirihluti umsækjanda er á leigumarkaði og með lágar tekjur en meðaltekjur umsækjanda eru nettó 335.132 krónur á mánuði. Þá eru eru 34 prósent umsækjenda í vinnu, 38 prósent á örorku eða lífeyri, 22 prósent atvinnulausir og 3 prósent í námi.

Mynd: Umboðsmaður skuldara


Kanna hvort að takmarka eigi markaðssetningu

Umboðsmaður skuldara hefur því kallað eftir aðgerðum í ljósi þess að sífellt fleiri lenda í vanda vegna skyndilána og þá sérstaklega ungt fólk. Í tilkynningu frá embættinu í mars síðastliðnum lagði embættið til þrjár aðgerðir til að spyrna við þessari þróun. Í fyrsta lagi að kannað yrði hvort að setja eigi skorður á mark­aðs­setn­ing­u ­skyndilána. 

Embættið segir að markaðssetning skyndilána sé öflug og áberandi og í miklum mæli beint að yngri kynslóðinni með áherslu á auðvelt aðgengi. Á vefsíðu Aurs, eitt þeirra fyrirtækja sem býður upp á skyndilán, segir til dæmis „Þú færð Aur lán samstundis. Það er alltaf opið og engin þörf á að mæta og skrifa undir.“ Annað dæmi er að á heimasíðu Íslandsbanka segir: „Þarftu að eiga fyrir óvæntum útgjöldum? Nú geturðu fengið lán í kortaappinu á örfáum mínútum.“ 

SMS- auglýsingar frá smálánafyrirtækiÍ fyrrnefndri skýrslu starfshóps um smálánafyrirtæki var meðal annars fjallað um ágenga og óumbeðna markaðssetningu í gegnum SMS-skilaboð í boði smálánafyrirtækja. Reynt hefur á lögmæti þess háttar óumbeðinna skilaboða frá Hraðpeningum, 1909, mula.is og smalan.is, en úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að brotið hefði verið gegn 46. gr. fjarskiptalaga eftir að neytendur höfðu óskað eftir því að sms-sendingum yrði hætt. 

Umrædd vörumerki eru þó enn í rekstri annars lögaðila og vefsíður eru skráðar á dönsk lén. Samkvæmt skýrslu starfshópsins viðheldur viðkomandi aðili sömu markaðssetningu í gegnum SMS-skilaboð og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála úrskurðaði að það bryti í bága við lög.

Aftur á móti segir í skýrslu starfshópsins að ekki hafi verið könnuð sérstaklega markaðssetning á löglegum neytendalánum. Í skýrslunni er þó fjallað um lagasetningu um markaðssetningu skyndilána í Noregi og Svíþjóð. Í Svíþjóð er kveðið á um hóflega markaðssetningu og samkvæmt lagasetningu þar í landi er kveðið á um að ef neytendalán eru með háan árlegan hlutfallslegan kostnað, ÁHK, þá beri lánveitanda að veita neytanda sérstakar upplýsingar um áhættuna sem fylgir lántökunni. Í norskum lögum er hins vegar lagt bann við því að setja fram upplýsingar um hversu auðvelt sé að taka lán. Til dæmis hversu hratt hægt sé að fá lán, hversu hratt megi búast við að fá svar við fyrirspurn um lán, hversu einfalt umsóknarferlið sé og svo framvegis.

Miðlægur skuldagrunnur og fjármálafræðsla 

Umboðsmaður skuldara lagði einnig til að settur yrði á fót miðlægur skuldagrunnur. Ljóst er – líkt og fjallað var um hér að ofan – að einstaklingar geta auðveldlega tekið mörg lán á stuttum tíma hjá ólíkum þjónustuaðilum og þannig skuldsett sig langt umfram greiðslugetu. Því telur Umboðsmaður að með því að skrá skuldastöðu einstaklinga væri hægt að koma í veg fyrir að sami einstaklingur tæki mörg lán hjá ólíkum aðilum með ofangreindum afleiðingum. Slík skráning myndi auk þess veita yfirsýn yfir umfang útlána af þessu tagi sem ekki er fyrir hendi í dag. Ásta Sigrún segir að því væri slíkur miðlægur gagnagrunnur hagsmunamál fyrir ríkið, lánveitendur og lántakendur. Hún bendir jafnframt á að aðkoma löggjafans sé nauðsynleg en að fyrirmyndir um slíkan skuldagrunn megi finna erlendis, bæði ríkis- og einkarekna. 

Enn fremur bendir Umboðsmaður skuldara á að til þess að ungt fólk hefji ekki sitt fjárhagslega sjálfstæða líf með neysluskuldir á bakinu þá verði að tryggja að ein­stak­lingar hafi for­sendur til að taka upplýstar ákvarðanir í fjármálum. Því telur Umboðsmaður að mennta- og vel­ferð­ar­kerf­ið, fjármálafyrirtæki og fleiri aðilar þurfi að vinna saman til að tryggja sam­ræmda fjármálafræðslu barna og ung­menna og að sú fræðsla þurfi að byrja snemma. Starfshópur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fjallaði einnig um bætt fjármálalæsi í tillögum sínum og lagði hópurinn til að fundinn verði staður í námskrá fyrir fjármálafræðslu í grunnskólum. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Mynd: Bára HuldÍ skýrslu starfshóps­ins er auk þess lagt til að gerðar verði kröfur um aukna upp­lýs­inga­gjöf lán­veit­enda sem ekki eru ­eft­ir­lit­sskyld­ir til eft­ir­lits­að­ila. Hóp­ur­inn lagði auk þess til að lögum verði breytt þannig að ­neyt­andi verði ekki kraf­inn um greiðslu vaxta og kostn­aðar af láni ef skil­málar láns­ins brjóta í bága við lög­bundið hámark á árlegri hlut­falls­tölu kostn­að­ar, þar á meðal ef lánið er tekið hjá erlendum lögaðilum. Hópurinn lagði til fjölda annarra tillöga að úrbótum en þær má finna hér. Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í mars síðastliðnum kom fram að unnið yrði áfram með tillögur starfshópsins í sam­ráði við þar til bærra aðila og stofn­ana. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar