Innflytjendur eru tæplega 20 prósent af öllum starfandi hér á landi eða alls 36.844 manns á aldrinum 16 til 74 ára. Þá hefur hlutfall innflytjenda af fjölda starfandi farið vaxandi í öllum landshlutum á síðustu árum. Á fyrsta ársfjórðungi var hlutfall innflytjenda af starfandi hæst á Suðurnesjum og Vestfjörðum. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.
Hlutfall innflytjenda farið vaxandi í öllum landshlutum
Hagstofan tekur saman tölur um fjölda starfandi samkvæmt skráargögnum ná til allra einstaklinga með atvinnutekjur sem eru gefnar upp til staðgreiðslu. Það eru laun vegna vinnu, fæðingarorlofsgreiðslur og reiknað endurgjald. Að jafnaði voru 192.232 manns á aldrinum 16 til 74 ára starfandi hér á landi á fyrsta ársfjórðungi 2019. Af þeim voru 47 prósent konur og 53 prósent karlar.
Þegar horft er til búsetu voru starfandi með skráð lögheimili á Íslandi að jafnaði 98 prósent allra starfandi. Af innflytjendum voru um 90 prósent með lögheimili á Íslandi. Hagstofan skilgreinir innflytjendur sem einstaklinga sem fæddir eru erlendis og eiga foreldra og báða afa og báðar ömmur sem einnig eru fædd erlendis.
Frá fyrsta ársfjórðungi 2013 hefur hlutfall innflytjenda af fjölda starfandi farið vaxandi í öllum landshlutum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 var hlutfallið hæst á Suðurnesjum og á Vestfjörðum eða á bilinu 25 til 30 prósent af öllum starfandi. Þá er hlutfallið lægst á Norðvesturlandi.
Innflytjendur með 8 prósent lægri laun en innlendir
Í greiningu Hagstofunnar á launamun innflytjenda og innlendra fyrir tímabilið 2008 til 2017 kemur fram að innflytjendur hér á landi eru að jafnaði með tæplega 8 prósent lægri laun en innlendir hér á landi. Það er að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fjölskylduhaga, búsetu og ýmissa starfstengdra þátta en með því að leiðrétta fyrir þessum þáttum fæst skýrari mynd af þeim áhrifum sem bakgrunnur hefur á laun hér á landi.
Skilyrtur launamunur var 10 prósent í störfum ræstingafólks og aðstoðarfólks í mötuneytum milli innlendra og innflytjenda, 11 prósent í störfum verkafólks við handsamsetningu og 8 prósent í störfum við barnagæslu.
Enn fremur kemur fram í greiningu Hagstofunnar að innflytjendur fæddir á Norðurlöndunum að jafnaði með hærri laun en innflytjendur fæddir í öðrum löndum. Til dæmis eru innflytjendur frá Vestur-Evrópu að jafnaði með 4 prósent lægri laun en innflytjendur frá Norðurlöndunum og innflytjendur frá Austur-Evrópu að jafnaði með 6 prósent lægri laun. Lægstu launin, miðað við innflytjendur frá Norðurlöndunum, hafa innflytjendur frá Asíu, eða 7 prósent að jafnaði.