Skerðing á þjónustu Strætó bs. vekur upp spurningar um þá gríðarlegu áherslu sem einkabíllinn fær enn þann dag í dag í samfélaginu þrátt fyrir aukna áherslu á fjölbreytta og vistvæna ferðamáta að mati Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
„Tal síðustu mánaða um hallarekstur á Strætó bs. og skerðingu á þjónustu vekur upp margar spurningar. Það vekur upp spurningar um skipulag, innviðauppbyggingu og hver raunverulegur gróði af bættum og betri almenningssamgöngum er,“ sagði Jana Salóme er hún fjallaði um almenningssamgöngur undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Hún sagði stöðuna einnig vekja upp spurningar um hvort almenningssamgöngur ættu ekki að vera skilgreindar sem grunnþjónusta.
Gefa þurfi raunverulegt val og frelsi til að velja sér samgöngumáta
Í ræðu sinni minntist Jana á samstarfsverkefni Vistorku og Orkuseturs sem nefnist SKREF en markmið þess er að draga úr notkun einkabílsins með breyttum ferðavenjum. „Það er ein af lykilaðgerðum þegar kemur að árangri í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti nægja ekki þar heldur þarf að fækka bílum á götunum. Það minnkar svifryksmengun, eykur umferðaröryggi og dregur úr kostnaðarsömu viðhaldi gatna ásamt því að vera stórt umhverfis- og loftslagsmál því að akstur bíls er eitt en framleiðsla og förgun annað,“ sagði Jana Salóme.
Hugarfarslegar hindranir er einn af þeim þáttum sem standa í vegi fyrir því að notkun einkabílsins minnki að mati Jönu Salóme. „Við ofmetum ferðatíma göngu og hjólreiða og vanmetum ferðatíma á bíl. Hugsum okkur um áður en við notum bílinn sem úlpu. Gæti verið að það sé fljótlegra að ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur?“ spurði Jana Salóme í ræðustól Alþingis.
Að lokum sagði hún það einnig vera frelsismál að geta valið um aðra samgöngumáta en einkabílinn. „Þetta er ekki spurning um að það sé einhver sérstök aðför að einkabílnum í gangi heldur er þetta spurning um að gefa fólki raunverulegt val, raunverulegt frelsi til að geta valið sér samgöngumáta. Þá þurfa uppbygging innviða og fjárfestingar að vera í takti við það.“
Arðbærni almenningssamganga sé öllum ljós
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, gerði samgöngur einnig að umtalsefni sínu undir liðnum störf þingsins en hann sagði þær skipta miklu máli, sérstaklega þegar stórir hópar ferðast á sama tíma á milli sömu staða. Það væri hagkvæmt að samnýta ferðir auk þess sem það drægi úr umferð, hvort sem um væri að ræða á virkum morgnum, síðdegis eða þegar fólk vill ferðast heim eftir skemmtun á einu af öldurhúsum miðborgarinnar.
„Þjóðhagsleg arðbærni almenningssamgangna er öllum ljós og var staðfest í skýrslu um Borgarlínu sem sýndi fram á um 25,5 milljarða kr. samfélagsábata af fyrstu lotu uppbyggingar Borgarlínunnar. Þjónusta á borð við almenningssamgöngur þarf ekki að standa undir eigin kostnaði til að verða arðbær en hún þarf að vera notuð af nógu mörgum til þess,“ sagði Jón Steindór í ræðu sinni.
Hann bætti því við að það væri arðbært að draga úr mengun frá umferð, að stytta ferðatíma og að tryggja „fólki sem tekur þátt í skemmtanalífinu örugga og áreiðanlega för heim til sín og kemur vonandi í veg fyrir að sumt fólk freistist til að keyra undir áhrifum, sérstaklega nú um stundir þegar bið eftir leigubílum virðist vera mæld í klukkustundum.“
„Hver yrðu eiginlega áhrifin á morgunumferðina ef allir notendur strætó væru á eigin bíl? Hver eru rök fyrir því að fella niður næturstrætó þegar 3.000 farþegar nýttu sér þjónustuna í júlí og ágúst?“ spurði Jón Steindór áður en hann að endingu hvatti ráðherra samgöngumála, Sigurð Inga Jóhannsson, til að veita almenningssamgöngum stuðning í samræmi við mikilvægi þjónustunnar.