Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda áform um að fella niður hina svokölluðu 100 ára reglu í tengslum við aldursfriðun húsa. Til stendur að leggja fram frumvarp til Alþingis þar sem lagt verður til að miða við eitthvað eitt, fast ártal, í stað þess að öll mannvirki sem ná 100 ára aldri verði sjálfkrafa aldursfriðuð.
Í skjali sem ráðuneytið hefur birt í samráðsgáttinni segir að stutt sé í aldursfriðun mikils fjölda steinsteyptra húsa og annarra mannvirkja bæði í þéttbýli og sveit, sem og innviða úr fjöldaframleiddum efnivið, til dæmis gaddarvírsgirðinga í sveitum landsins.
Ráðuneytið segir að fágæti auki varðveislugildi minja, en hið gagnstæða dragi úr því. Ljóst sé að það sé hvorki „hægt né æskilegt að vernda allar menningarminjar og hús“ heldur sé þörf faglegum rökum fyrir vernd, „ekki síst í ljósi þess að byggingarefni og verkhættir breyttust allnokkuð á þriðja áratug 20. aldar“. Ráðuneytið segir að ef ekkert verði aðhafst muni fjöldi fornleifa öðlast aldursfriðun, sem ekki er þörf á að vernda.
Álag á stjórnsýslu og tómur húsafriðunarsjóður
Einnig er því haldið til haga í plaggi ráðuneytisins að með stórauknum fjölda húsa og annarra mannvirkja sem yrðu friðuð á hverju ári myndi álag á stjórnsýslu minjamála aukast. Það er sagt geta „dregið úr getu til að fjalla á vandaðan hátt um öll mál og til lengri tíma haft neikvæð áhrif á minjar með hátt varðveislugildi sem sannarlega þarf að vernda“. Auk þess er þess getið að fjárhagsleg áhrif þessara breytinga á ríkissjóð verði sennilega jákvæð til langs tíma litið, því ef engu yrði breytt myndi kostnaður við stjórnsýslu minjamála stóraukast.
Þá er fjallað um neikvæð áhrif á húsafriðunarsjóð, sem er sérstakur sjóður sem Minjastofnun úthlutar úr til framkvæmda við friðuð hús. Á þessu ári var 300 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum, en sótt var um fjórfalda þá upphæð í sjóðinn, eða 1,2 milljarða króna.
Ráðuneytið segir í skjali sínu að ef það verði mikil fjölgun á aldursfriðuðum húsum blasi við að húsafriðunarsjóðurinn muni ekki geta mætt slíkum fjölda, og verði einungis fær um að styrkja lítinn hluta þeirra húsa sem hlotið hafa aldursfriðun.
Sigmundur Davíð vildi miða við 1915
Sem áður segir er horft til þess að breyta aldursfriðunarákvæðinu á þann hátt að í stað þess að minjar verði friðaðar þegar þær verða 100 ára þá verði lögfest tiltekið ártal sem verði miðað við.
Hugmynd að slíku tilteknu ártali er ekki lögð fram í skjali stjórnvalda, en til stendur að leggja fram drög að frumvarpi um málið í samráðsgátt og þá væntanlega verður einhverju einu ártali varpað fram.
Umræða var um þessi mál árið 2015, er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Sigmundur lagði þá fram tillögu um sama og nú ert gert, að hætta að friða sjálfkrafa öll 100 ára gömul hús og horfa þess í stað til þess að öll hús sem byggð voru fyrir árið 1915 yrðu friðuð.
Hlaut það góðar undirtektir hjá Magnúsi Skúlasyni, sem þá var formaður húsafriðunarnefndar, en í samtali við RÚV sagði hann að það væri orðið húsafriðunarnefnd og Minjastofnun ofviða að taka á móti jafn mörgum húsum til friðunar og raun bæri vitni.
„Það þarf að vinsa þar úr ennþá meira. 1915-reglan er vel viðeigandi vegna þess að þá lýkur timburhúsaöld í Reykjavík, og við tekur svona steinsteypuöldin, og það gildir nú fyrir allt landið reyndar,“ sagði Magnús, við fréttastofu RÚV.