Húsnæði þar sem Sósíalistaflokkur Íslands leigir aðstöðu ásamt öðrum samtökum var grýtt í gær, með þeim afleiðingum að tveir gluggar þar sem merki flokksins og Samstöðvarinnar var, brotnuðu. Frá þessu greinir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, á Facebook-síðu flokksins í gærkvöldi.
Þar segir hann enn fremur frá því að maður hefði sent á hann skilaboð fyrir tveimur dögum með óhróðri. Skilaboðin voru eftirfarandi: „Þið eruð siðblind helvíti og farið beint þangað. Ég mun finna á endanum hvar þið eigið heima. Hugsaðu um fjölskylduna þína áður en þið haldið áfram. Ég vill ekki beita vopnum en þið gefið mér ekki færi á öðru.“
Gunnar Smári segir að hann hafi greint manninum frá því að hann myndi senda skilaboðin til lögreglu og gerði það í kjölfarið. „Lögreglumaður hringdi í mig daginn eftir og ég nefndi við hann að annar maður hefur haft í hótunum við mig, veist að mér úti á götu og fjölskyldu minni. Ég sá hann síðast fyrir utan heimili mitt þar sem hélt hótunum sínum áfram, hrópaði alls kyns ókvæðisorð um meinta glæpi sósíalismans, sagði mér að láta Bjarna Benediktsson í friði og hrópaði að lokum: Viva Bjarni Ben!“
Benti lögreglu á skoða orðfæri áhrifafólks
Hann segist hafa bent lögreglumanninum á að þeir sem rannsaki hatursorðræðu innan lögreglunnar ættu skoða orðfæri áhrifafólks í samfélagsumræðunni, sem talaði um sósíalisma þannig að fólk sem væri að berjast fyrir hagsmunum verkalýðs og fátæks fólks innan Sósíalistaflokksins bæri á einhvern hátt ábyrgð á morðum og ofbeldisverkum alræðisstjórna á síðustu öld. „Að þau sem vildu há róttæka verkalýðsbaráttu á Íslandi í dag væru í raun að leggja af stað í leiðangur sem hlyti að enda í afnámi lýðréttinda, morðum á pólitískum andstæðingum, jafnvel hungursneyðum sem myndu fella tugi milljóna manna. Undir slíkum hatursræðum gegn frelsisbaráttu hinna fátæku og valdalausu fengju vanstilltir menn þær grillur í hausinn að sjálfsagt væri að hóta og jafnvel meiða forystufólk í Sósíalistaflokknum og í verkalýðshreyfingunni.
Óttast að hótanir séu nú meira en belgingur
Gunnar Smári segir ekki geta vitað hvort annar þeirra manna sem hann benti lögreglu á hafi verið að verki þegar skemmdarverk voru unnin á húsnæði Sósíalistaflokks Íslands í gær.
Hann gruni þó að svo sé. „Ég hef verið blaðamaður frá því fyrir næstum fjörutíu árum og oft verið hótað. Menn hafa ruðst inn á ritstjórnir blaða sem ég hef unnið á og gert sig breiða, ætt inn á skrifstofu mína, lokað á eftir sér og hótað líkamsmeiðingum. Ég hef fengið hótanir í pósti, símtölum, tölvupósti og sms. Mér datt aldrei í hug að tilkynna þessar hótanir og hef aldrei sagt frá þeim opinberlega.
Ekki fyrr en núna í vikunni. Heiftin í þessum mönnum og talsmáti, og fullvissa þeirra um að sósíalistar sé skepnur og svívirðingar, veldur því að ég óttast að þetta sé ekki bara belgingur, eins og hótanir eru oftast.“
Gunnar Smári segir að sama orðræða hafi verið viðhöfð í átökunum í kringum Eflingu sem staðið hafa undanfarin ár. Þar hafi Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, verið sögð Stalínisti, halda dauðalista yfir fólk, þola enga gagnrýni og annað sem átt hafi að skapa hugrenningatengsl við glæpa alræðisstjórna Sovétríkjanna. „Og þegar Pútín sendi rússneska herinn inn í Úkraínu stigu menn á stökk, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru taldir málsmetandi, til að lýsa yfir ábyrgð íslenskra sósíalista á þessari innrás. Jafnvel þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í pólitísku samstarfi við Sameinað Rússland fram að innrásinni á Krím og Pútín er álíka langt frá því að vera Sósíalisti og Bolsonaro, Trump eða Erdogan, svo einhverjir af öðrum pólitískum samherjum Sjálfstæðisflokksins séu nefndir.“
Í færslunni segir Gunnar Smári að hann telji að sósíalistar þurfi að taka alvarlega þá orðræðu sem sé viðhöfð á Íslandi. „Það eru augljós merki um vaxandi McCarthyisma, þar sem reynt er eins og á síðustu öld að tengja heiðarlegan sósíalisma, verkalýðsbaráttu og réttlætisbaráttu hinna valdalausu við undirróður, annarleg og leynd markmið, niðurbrot lýðréttinda eða fyrir að vera handbendi erlendra alræðisríkja. Þetta er sú aðferð sem andstæðingar sósíalismans þekkja og grípa fljótt til þegar sósíalískur málflutningur heyrist. Því er haldið að fólki að sá sem hneigist til sósíalisma muni fljótt verða alræðissinni. Svona svipað og þegar Nancy Reagan hélt því fram að sá sem reykti hass mundi óhjákvæmilega reykja krakk stuttu síðar. Þótt þetta sé banal orðræða þá virkar hún á fólk sem er einmitt banalt fyrir og það sér sósíalista sem stórhættulegt fólk sem verður að stoppa.“