Húsnæðismál, samgöngumál og loftslagsmál eru meðal helstu mála í samstarfssáttmála nýs meirihluta Framsóknarflokksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar sem kynntur var á blaðamannafundi oddvita flokkanna í Elliðaárdal í dag.
Í sáttmálanum, sem er alls 33 blaðsíður, er fyrst fjallað um þau verkefni sem falla undir fyrstu breytingar.
Meðal þeirra verkefna er húsnæðisátak og úthlutun lóða í Úlfarsárdal, Gufunesi, á Kjalarnesi, Hlíðarenda og Ártúnshöfða, auk samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts.
Þá verður frístundastyrkur hækkaður í 75 þúsund krónur 1. janúar 2023 og börn á grunnskólaaldri frá ókeypis í sund og strætó. Einnig verður viðhaldsátak sett í forgang í leik-, grunn- og frístundahúsnæði borgarinnar og verkefnum flýtt eins og kostur er.
Meðal fyrstu verkefna verður einnig að koma næturstrætó aftur í umferð og gerð verður tilraun með að hafa eina sundlaug borgarinnar opna til miðnættis.
Sáttmálinn svari kröfu Framsóknar um breytingar að öllu leyti
„Ég er ákaflega ánægður með þennan sáttmála. Hann svarar að öllu leyti kröfu Framsóknar um breytingar í Reykjavík á næsta kjörtímabili,“ sagði Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, í Reykjavík, á sameiginlegum blaðamannafundi nýs meirihluta í Elliðaárdal í dag.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sagði áherslur Pírata í samstarfssáttmálanum endurspeglast í loftslagsmálum „sem er leiðarljós í gegnum þennan sáttmála“, auk „lýðræðis, gagnsæis og réttláts samfélags fyrir öll og alla hópa“. Umhverfis- og loftslagsmál fara inn í Skipulagsráð sem verður leitt af Dóru Björt.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sagði að áhersla verði lögð á atvinnu- og nýsköpunarmál, auk loftslagsmála. Þórdís Lóa verður forseti borgarstjórnar og þar mun samtal við atvinnulífið fara fram.
Dagur Eggertsson, formaður Samfylkingarinnar, verður áfram borgarstjóri út næsta ár þegar Einar tekur við. Dagur sagði mikinn ferskleika yfir nýja meirihlutanum. Að hans mati felst meirihlutasamstarfið í að þróa samstarfið áfram og í græna átt og að fram undan sé mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. „Ekki síst í húsnæðismálum en líka í samgöngumálum, borgarlínu, Sundabraut og fleiri verkefni sem við höfum náð saman um.“
Einar sagði kosningabaráttuna hafa leitt í ljós kröfu um breytingar í húsnæðis- og samgöngumálum og ýmsum velferðarmálum og segir hann flokkana hafa náð vel saman utan um þessi mál í meirihlutaviðræðunum. Samstarfssáttmálinn er að hans mati gott veganesti inn í næstu fjögur ár.
Fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar á morgun
Málefnasamningurinn verður kynntur innan flokkanna í kvöld. Framsóknarflokkur hefur boðað til fundar innan borgarmálaráðs flokksins. Þá hefur fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík boðað til allsherjarfundar í húsnæði flokksins í Sóltúni. Reykjavíkurráð Viðreisnar hefur sömuleiðis boðað til fundar og Píratar í Reykjavík hafa einnig boðað til kynningarfundar.
Fyrsti borgarstjórnarfundur nýs meirihluta verður á morgun, þriðjudag, og hefst klukkan 14 þar sem verður meðal annars kosið í ráð og nefndir innan borgarstjórnar.